151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Hér erum við í stórri og mikilvægri umræðu um skólakerfið og stöðu mismunandi hópa og aðstæður mismunandi hópa þar innan. Skóli án aðgreiningar, það er kannski ekki réttnefni yfir alla þessa hópa, en það má segja að það sem þessir hópar eiga ávallt sameiginlegt og má ræða út frá skóla án aðgreiningar, að þetta snýst svolítið um að það sé val og það sé jafnrétti til náms og aðstæðna. Skóli án aðgreiningar á því fullkomlega rétt á sér til að tryggja þetta jafnrétti þannig að ef viðkomandi nemandi sér sínum hag best borgið í skóla án aðgreiningar á hann vissulega að hafa val um það til þess að nýta styrkleika sína, búa við þessa félagslegu blöndun og það er líka gott og þroskandi fyrir aðra nemendur að upplifa fjölbreytileikann og annað slíkt. En það er mikilvægt að sérskólar séu líka val á sömu forsendum, þannig að það getur hentað öðrum börnum mun betur að vera í sérskóla og þannig uni þau hag sínum best, þannig að aðstandendur og börn þurfa að hafa þetta val: Hvað hentar hverjum best hverju sinni. En þetta þarf líka að vera fyrir aðra hópa sem nefndir eru í þessari umræðu; unga drengi, meðalnemendurna, innflytjendur og annað slíkt. Það þarf svolítið að vinna t.d. út frá áhugasviði hvers og eins, út frá styrkleikum hvers og eins, ekki steypa öllum í sama formið til þess að hver og einn fái notið sín í náminu og fái að fara í gegnum námið og upplifa það á sem bestan hátt og ná sem bestum árangri.