151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram sýna greiningar að sumum drengjum gengur verr í námi hér og reyndar er sagan svipuð víða um Vesturlönd, en eins og hér var réttilega sagt fyrir augnabliki á þetta líka við um stelpur. Þær glíma við margs konar vanda, og allir hinir, og ekki síst þeir nemendur sem eiga ekki íslensku sem fyrsta tungumál, þeir eiga oft erfitt uppdráttar, og svo sá hópur sem býr við fötlun eða skerðingar af ýmsum toga.

Ég er sammála þeirri nálgun að lesa sér til gagns. Það er það allra mikilvægasta fyrir okkur öll. Það er vert að minnast þess að partur af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fjallar einmitt um að fólk hafi sama aðgang að öllum skólastigum án aðgreiningar. Tilgangurinn er m.a. að auka virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og tryggja mannréttindi allra til þess að geta þroskað sig og að sköpun þeirra og hæfileikar fái notið sín. En til þess þarf að auka stuðning innan kerfisins og auka fjölbreytni, sérstaklega fyrir fatlaða nemendur, ekki síst þegar framhaldsskólanámi lýkur. En svo þurfum við líka að hafa val, t.d. um sérskóla þar sem ekki þrífast allir innan hefðbundins grunnskóla, ef hægt er að nota það orð, og þurfa sértækan stuðning.

En að öllu sögðu finnst mér mikilvægt í þessu samhengi að hafa samráð við samtök fatlaðs fólks um það hvernig við gerum kerfið enn betra. Við megum ekki gleyma því að þessi ákvæði urðu ekki til í tómarúmi heldur eru niðurstaða víðtækrar umræðu sem leiddi til þess að skóli án aðgreiningar er ekki síst mikilvægt hagsmunamál fyrir fólk með fötlun.

Virðulegi forseti. Mikið af þeim rökum sem eru notuð gegn skóla án aðgreiningar gerir ráð fyrir að bekkjakerfi hafi neikvæð áhrif í þessu samhengi. Í því samhengi eru mýmörg dæmi þess að nemendur velji sér framhaldsskóla eftir því hvort þar er bekkjakerfi eða áfangakerfi enda hentar ekki eitt öllum. Kerfið okkar er ágætt og við eigum heilmikið í handraðanum og þurfum ekki að byrja frá grunni. En það er margt sem við þurfum að byggja undir og gera enn betur. Allt skólastarf er og á að vera í stöðugri endurskoðun og þróun (Forseti hringir.) sem á að fara fram á faglegum grunni þannig að ávallt sé litið til allra þátta og ákvarðanir teknar á grunni núverandi aðstæðna og framtíðarsýnar. En, virðulegi forseti, endanlegt markmið okkar á alltaf að vera að við búum, lærum og störfum saman í samfélagi án aðgreiningar.