151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:24]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að skipuleggja eigi menntakerfið okkar með traust til kennara og skólastjórnenda að leiðarljósi, að við sköpum þessu fagfólki góðan ramma og trausta umgjörð en með svigrúmi og frelsi til að beita fagþekkingu sinni. Skólastjórnendur og kennarar hafa notað þetta frelsi til að skapa námsumhverfi sem hentar nemendum þeirra. Þetta fólk er í návígi við nemendur og þekkir þarfirnar en þekkir um leið hvar hæfileikarnir liggja. Nemendahóparnir eru auðvitað bæði fjölbreyttir innan hvers skóla og á milli skóla. Skólarnir þurfa þess vegna að hafa svigrúm til að bregðast við því til að geta þjónað nemendum sem best og stuðlað að því að þeir blómstri. Við viljum stöðugleika í menntakerfið okkar og ákveðna festu en um leið ákveðið frelsi.

Í þessari umræðu um skóla án aðgreiningar myndi ég fara í þá átt að benda á þann stækkandi hóp nemenda sem á íslensku sem annað tungumál. Í umræðu um menntastefnu menntamálaráðherra til 2030 var bent á að í kaflanum um jöfn tækifæri fyrir alla vantaði að forma skýrt með hvaða hætti það væri gert að tryggja jöfn tækifæri fyrir nemendur af erlendum uppruna og nemendur sem hafa íslensku sem annað tungumál og hvernig við gætum stuðlað að jöfnum tækifærum og læsi, t.d. hjá þessum hópi barna. Skólinn okkar ætti að vera í því hlutverki að veita tækifæri og vinna gegn aðgreiningu með því að tryggja börnum aðgengi og þátttöku í samfélaginu í gegnum tungumálið. Við erum að ganga í gegnum miklar samfélagslegar breytingar. Ég vil aftur nefna það sem ég kom inn á í fyrri ræðu minni, að endurskoðun á viðmiðunarstundaskrá þurfi að endurspegla þær breytingar. (Forseti hringir.) Þar verður að líta til allra þeirra færniþátta (Forseti hringir.) sem kallað er eftir og þess að við hugsum vítt til að allir rúmist innan rammans.