151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum sem tóku til máls í umræðunni. Þar kom margt athyglisvert fram. Sumir eru t.d. á móti mælingum á árangri, á móti prófum, og vilja líklega bara fljóta áfram í stefnuleysi. En það þarf að sönnu mikinn kjark til að gagnrýna skólakerfið okkar og beita sér fyrir endurskoðun og hæstv. ráðherra þarf ekki síður mikinn kjark til að viðurkenna að við séum á rangri leið. Árangurinn er lélegur. Nemendur eru ekki verr gefnir en fyrir áratugum síðan. Kennarar eru ekkert minna færir um að kenna en áður, líklega bara færari og er ég þar sammála hæstv. ráðherra. Kannski þarf frekar að auka virðingu fyrir kennarastarfinu, en stærsti þátturinn þar er auðvitað launin og launakjörin. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að margir telji að eitthvað sé að kerfinu sem við vinnum eftir, hvernig við höldum utan um málin og hvernig skólakerfið er skipulagt. Auðvitað eru gífurlegir fjármunir settir í menntakerfið, herra forseti, sem og tími og orka nemenda, kennara, foreldra og allra þeirra sem vinna í því. Þess vegna þurfum við að krefjast árangurs og ef hann kemur ekki í ljós þurfum við að snúa af rangri braut.

Í Vestmannaeyjum er mjög áhugavert verkefni farið af stað sem ber nafnið Kveikjum neistann þar sem er reynt að snúa þessari þróun við og kveikja námsneista meðal barna, hafa ástríðutíma, leggja meiri áherslu á hreyfingu og taka læsi alvarlega. Starfið er byggt á þróunar- og rannsóknarverkefnum eftir bestu vísindum.

En það má líka fara aðrar leiðir, herra forseti. Ég nefndi í fyrri ræðu að hugsanlega ætti að leggja meiri áherslu á sérskóla og sérdeildir innan skólanna. Það er ekki í andstöðu við stefnu um skóla án aðgreiningar að fara þá leið.