151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

viðmið um nýgengi smita.

[13:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Samfylkingin, sóttvarnalæknir og raunar allur þorri almennings hefur síðastliðnar vikur kallað eftir hertari aðgerðum á landamærum til að takmarka áhættu á því að smit berist inn í landið. Á endanum tókum við í Samfylkingunni málið í okkar hendur og sendum inn frumvarp um breytingar á sóttvarnalögum sem heimilaði ráðherra að skylda komufólk í sóttvarnahús. Það virtist loksins hreyfa eitthvað við þessari ríkisstjórn, en sólarhring síðar var forystufólk hennar mætt í Hörpu á blaðamannafund að tilkynna um nýjar aðgerðir á landamærum. Við fögnum því út af fyrir sig, en blaðamannafundurinn þótti frekar ruglingslegur og skildi marga eftir með fleiri spurningar en svör. Ein spurningin sem er á vörum margra varðar viðmið um nýgengi smita. Þegar heilbrigðisráðherra kynnti síðast reglugerð um skyldudvöl í sóttvarnahúsi, en var gerð afturreka með, var hááhættusvæði miðað við 500 smit á 100.000 íbúa, eins og Sóttvarnastofnun Evrópu gerir ráð fyrir. Þá var staðan nokkuð góð innan lands og ríkisstjórnin samstiga að eigin sögn. Í dag er staðan talsvert verri, en samt tilkynnir ríkisstjórnin að hækka eigi fjöldaviðmiðið, svo mikið að nánast ekkert land í Evrópu er skilgreint sem hááhættusvæði.

Hæstv. ráðherra. Nákvæmlega hvað í faraldrinum kallar á að nú séu gerðar vægari kröfur en þegar ríkisstjórnin stóð sameinuð um þetta fyrir tveimur til þremur vikum? Hvaða heimspeki liggur yfir höfuð þar að baki? Telur hæstv. ráðherra ekki öruggara fyrir landsmenn að sömu viðmiðum sé fylgt hér og í öðrum Evrópuríkjum í staðinn fyrir að ríkisstjórnin taki upp á að búa til sín eigin?