151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

kostnaður og ábati af Covid-aðgerðum.

[13:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því þegar spurt er: Hver er kostnaðurinn af öllum aðgerðum stjórnvalda? (Gripið fram í.) — Já, og það er einmitt það sem ég ætlaði að segja að það hefur líka verið gríðarlegur ábati. Ég held að það væri nefnilega nær að tala um hversu mikið skjól, hversu mikla vernd, við höfum náð að byggja upp fyrir hagkerfið allt og líf og heilsu fólks með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Þannig er það nú bara, ef menn skoða þetta af einhverri sanngirni, að það er eftir því tekið hvernig tekist hefur til með aðgerðir á Íslandi og bæði ríkisstjórn og ekki síður Alþingi hafa sýnt mikinn sveigjanleika eftir stöðunni hverju sinni til að bregðast við, og við erum enn að því og það er ekki nema eðlilegt.

Eitt af því sem við skulum muna í þessu sambandi er að þegar við fórum í fyrstu aðgerðir okkar lá ekkert fyrir um það hvort bóluefni kæmi yfir höfuð. Menn höfðu spáð því að það gæti mögulega gerst seint á árinu 2021. En eftir því sem tíminn hefur liðið þá hefur ýmislegt fallið með okkur, t.d. það að menn skyldu hafa unnið það kraftaverk að framleiða bóluefni sem geta komið að gagni á skömmum tíma, sett algjört met í þeim efnum. Og já, við ætlum okkur að njóta góðs af því að sækja þau bóluefni og koma þeim til landsmanna. Það er auðvitað á endanum ekkert annað en læknisfræðilegt mat byggt á þekkingu í sóttvörnum sem mun ráða því hvenær óhætt er að fara að draga úr hömlum hér innan lands. Þegar allir viðkvæmir hópar, hóparnir sem sýkjast helst og veikjast, hóparnir sem helst eru lagðir inn á spítala, fólkið sem er í mestri lífshættu — þegar allt þetta fólk hefur fengið fulla bólusetningu og stór hluti þjóðarinnar að öðru leyti er kominn með a.m.k. fyrri skammtinn er samkvæmt bestu upplýsingum, og við munum fara að ráðum sérfræðinga í þessu, mjög lítil áhætta í því fólgin að fara að draga úr hömlum hér innan lands. Svo munum við nota áhættumat fyrir landamærin.