151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

frumvarp um starfslokaaldur ríkisstarfsmanna.

[13:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé einhver misskilningur á ferð, a.m.k. sjáum við þetta með mjög ólíkum hætti. Ég get alveg tekið þátt í því að málum sé vísað til ríkisstjórnar og að þau fari þangað til skoðunar og úrvinnslu. Í því felst ekki loforð um að tiltekinn ráðherra muni leggja málið fram til Alþingis í sínu nafni og í þeim búningi sem hv. þingmaður vill. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig. Málið er til skoðunar. Og þannig að við komumst í efnislega umræðu um málið er ég þeirrar skoðunar að þetta sé ágætismál. Ég er þeirrar skoðunar að tímabært sé að opnað verði fyrir það að fólk starfi lengur en gilt hefur til þessa í opinbera kerfinu, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Efnisatriði málsins eru ágæt en þau þarf að ræða í samhengi við t.d. ávinnslu lífeyrisréttinda, lífeyristökualdur og slíka þætti. Efni málsins sjálft er ágætt og ég vil gjarnan að við náum breiðri samstöðu og helst samkomulagi við vinnumarkaðinn um að finna leiðir til að láta það verða að veruleika, þannig að ég endi þetta á jákvæðum nótum.

(Forseti (SJS): Það er alltaf gaman af því að umræðum ljúki á jákvæðum nótum.)