151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir kynninguna á þessu frumvarpi og þakka henni fyrir að leggja það fram. Ég greini ákveðið hjálparkall frá hæstv. ráðherra til þingsins um að setja fyllilega nægar stoðir til þess að hægt sé að verja land og þjóð í baráttunni við veiru sem geisar um alla heimsbyggðina. Ég er til reiðu til að fara í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þann tímaramma sem settur er inn í þetta. Hvað gerist í heiminum 1. júlí? Þetta frumvarp er algjörlega markað af þeirri stöðu sem við erum í núna, sagði hæstv. ráðherra. Við vissum ekki 1. mars að við yrðum með 100 smit 21. apríl. Er ekki óvarlegt að setja lagaákvæði sem gefinn er svona knappur tími þegar við vitum ekki hvar heimsbyggðin verður 1. júlí og Alþingi Íslendinga verður í sumarleyfi?