151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að hafa greint ákall mitt um hjálp en segi það án alls gríns að auðvitað geri ég ráð fyrir því, eins og hefur sem betur fer verið í öllum þessum málum sem lotið hafa að Covid-umræðunni, að það sé í meginatriðum samstaða á Alþingi. Ég þakka velferðarnefnd fyrir aðkomu sína að því.

Við vitum ekki hvað gerist 1. júlí, eins og þingmaðurinn bendir réttilega á. En við vitum þó að við verðum komin þangað með bólusetningarnar að við eigum eftir mjög lítinn hluta af samfélaginu. Þá ættum við að geta verið í þeirri stöðu að innanlandsaðgerðir ættu að mestu leyti að heyra sögunni til. Varðandi heimild af þessu tagi er mat mitt það að sá tímarammi sem hér er gefinn upp eigi að duga. En ég held að það sé um leið gott að gera ráð fyrir því að Alþingi geti komið að því að endurmeta það ef til kemur.