151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:09]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég er með endalaust margar spurningar en rosalega lítinn tíma til þess að spyrja þeirra. Ég ætla því að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í þessar undanþágur. Mig langar að spyrja hvort það hafi verið rætt eða hvort hún telji mikilvægt að tryggja að viðkvæmir einstaklingar eða hópar geti fengið mat á því hvort þeir geti yfir höfuð verið í fimm daga sóttkví fjarri heimili sínu. Þá er ég t.d. að tala um fatlaða einstaklinga sem þurfa sérstaka aðstöðu eða aðstoð við daglegt líf, einstaklinga sem eiga við andleg vandamál að stríða, t.d. áfallastreituröskun eða svæsna innilokunarkennd, sem dæmi, en líka fjölskyldur með ungbörn eða veik fötluð börn. Hvernig eigum við að tryggja að við setjum slíkt fólk ekki í ómannúðlegar aðstæður? Er búið að tryggja að fram muni fara mat á einstaklingsgrundvelli? Fram kemur í umsókn um undanþágu að hún skuli hafa borist sóttvarnalækni a.m.k. tveimur sólarhringum fyrir komuna til landsins. Hvenær mun svarið við undanþágunni berast? Hvernig ætlum við að tryggja að fólk sé upplýst um hvað tekur á móti því þegar það kemur til landsins?