151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi varðandi undanþágur eru fatlaðir einstaklingar mjög gott dæmi um hópa sem veita á undanþágu að mínu mati og það er raunar þannig í gildandi reglugerð og mun verða þannig áfram.

Varðandi síðan það sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um, þ.e. hópa eða einstaklinga sem þurfa að sæta sóttkví en búa við einhverja þá heilsufarsógn eða eitthvað slíkt að þeir telji að þeir þurfi að fá undanþágu, þá er það auðvitað skoðað í hvert sinn. En það er líka þannig, og mér finnst það mjög mikilvægt að það liggi fyrir, að sóttkvíarhótelin eru með ákveðið bakland í heilbrigðisþjónustunni þannig að við erum með tengingar bæði við heilsugæsluna og við geðteymin, þannig að ef upp kemur skyndilegt tilvik þar sem grípa þarf inn í með sérfræðingum á þessu sviði þá viljum við að það sé gert án þess að viðkomandi þurfi mögulega að fara á bráðamóttöku eða eitthvað slíkt.