151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi barnasáttmálann og mannréttindasjónarmiðin sem hv. þingmaður nefnir, sem eru auðvitað mjög mikilvæg, þá höfum við horft sérstaklega til þeirra. Það er sérstaklega tekið tillit til barna í drögum að reglugerð sem liggja fyrir á grundvelli frumvarpsins, verði það að lögum, bæði varðandi útiveru og aðbúnað. Sérstaklega er fjallað um það, einmitt í ljósi þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður nefnir.

Hv. þingmaður spyr af hverju þetta gerist svona hratt en samt svona seint. Það er alveg rétt að legið hefur fyrir um nokkurt skeið, alveg frá páskum í raun og veru, að lagastoð skorti undir fyrri ákvarðanir. En það var jafn ljóst þá að við myndum freista þess eins og við gætum að beita reglugerðum á grundvelli gildandi laga. En við töldum rétt að við þyrftum að meta það eftir því sem tímanum yndi fram hvort við þyrftum samt sem áður að styrkja lagastoðina. Það var mat okkar, í ljósi þess (Forseti hringir.) að við horfðumst í augu við hópsmit innan lands, að við þyrftum að treysta varnirnar á landamærunum.