151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem betur fer hefur verið minna um að landsmenn á Íslandi hafi verið lokaðir inni í þessum faraldri heldur en hefur gerst víðast hvar í Evrópu. Víða hafa börn meira að segja ekki getað verið úti. Og talandi um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum rætt um í tengslum við sóttkví, hefur það verið daglegt líf og veruleiki barna í Evrópu á friðartímum að komast ekki út. Þannig að enn og aftur hafna ég gífuryrðum hv. þingmanns af því að ég held að þau hjálpi okkur ekki neitt (Gripið fram í.) í þessari umræðu.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um hversu mörg smit þurfi að vera hjá tiltekinni þjóð til þess að sú þjóð teljist vera eldrauð á þessum mælikvarða eða yfir 1.000 á hverja 100.000 íbúa. Ég er ekki með þær tölur í höndunum en í raun og veru falla fjögur ríki undir þá skilgreiningu núna, þ.e. Pólland, Ungverjaland, Frakkland og Holland. Það er staðan núna. (Forseti hringir.) Nýtt kort Sóttvarnastofnunar Evrópu verður uppfært á morgun og þá sjáum við hvort orðið hefur einhver þróun í þessu (Forseti hringir.) en því miður er enn þá mikill uppgangur í veirunni víða í Evrópu.