151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma loksins fram með frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum svo að hægt sé að stemma stigu við mestu lekunum á landamærunum nú þegar 14 mánuðir eru liðnir frá því að baráttan við heimsfaraldur Covid-19 hófst. Eins og mörgum ætti að vera kunnugt var nokkur umræða í þinginu fyrir fjórum vikum þegar hæstv. heilbrigðisráðherra boðaði framlagningu reglugerðar um að skylda ferðamenn frá hááhættusvæðum til dvalar í sóttvarnahúsi á vegum stjórnvalda, ferðamenn frá dökkrauðum svæðum eins og kallað var, en þá var notast við skilgreiningu Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar um slík svæði.

Frú forseti. Í gær fékk almenningur, já, og heimsbyggðin öll, þær fréttir að ríkisstjórnin hefði fundið upp íslenskt afbrigði af skilgreiningunni á því hvaða svæði væru hættusvæði og hvaða svæði væru á hááhættusvæði. Íslenska afbrigðið snýst um 1.000 smit á hverja 100.000 íbúa en ekki 500 smit eins og Evrópska sóttvarnastofnunin notar. Engin skýring hefur fengist á þessu íslenska afbrigði né heldur vill sá sérfræðingur sem stjórnvöld hafa reitt sig á síðustu 14 mánuði, sóttvarnalæknirinn geðþekki, Þórólfur Guðnason, kannast við að hafa komið að því þegar stjórnvöld tóku þá ákvörðun, að því er virðist við ríkisstjórnarborðið, að breyta viðmiðunum um hááhættusvæði. Þau eru ekki lengur 500 smit á hverja 100.000 íbúa heldur eru þau 1.000. Sóttvarnalæknir sagði í Kastljósi gærkvöldsins að hann hefði ekki séð frumvarpið og á upplýsingafundi í morgun sagði hann að nú ætti eftir að sjá hvernig frumvarpið liti út eftir þinglega meðferð áður en tekin yrði ákvörðun um framhaldið.

Frú forseti. Við glímum við heimsfaraldur sem hegðar sér ekki eftir óskum okkar. Óljóst er hvernig þetta séríslenska afbrigði á skilgreiningu hááhættusvæða á að einfalda það umfangsmikla verkefni okkar, enda eru skýr og einföld skilaboð langbesta leiðin til að koma á samstöðu meðal þjóðarinnar og meðal ferðafólks. Já, ferðafólks, því að það þarf að vita við hverju má búast við komuna hingað til lands. Á þeim grundvelli tekur fólk ákvörðun um að fara eða fara ekki í ferðalög og um að fylgja þeim fyrirmælum sem eru sett, séu fyrirmælin ferðafólkinu kunnug. Frumvarp það sem hæstv. heilbrigðisráðherra leggur hér fram, sem inniheldur hvort tveggja ákvæði til breytinga á sóttvarnalögum sem og ákvæði til breytinga á útlendingalögum, getur því miður seint talist skýrt og auðskiljanlegt en það er forsenda þess að almenningur geti fylgt reglum og skilið tilgang þeirra.

Það að setja inn í lagaákvæðið, þó að til bráðabirgða sé, svo þrengdar skilgreiningar í stað þess að eftirláta ráðherra að útfæra í reglugerð hver framkvæmdin verður tel ég afar óheppilegt á tímum sem þessum, enda mátti skilja það á sóttvarnalækni á upplýsingafundi í morgun að hann væri nokkuð uggandi yfir stöðu mála. Mátti einnig túlka orð hans svo, en kann ég þó að hafa rangt fyrir mér, að hann væri í rauninni að biðla til þingsins að fara í það að hafa skilgreininguna frekar í reglugerð en leiðbeinandi í greinargerð með frumvarpinu, að ákvörðun um hvernig þetta væri miðað við stöðuna á faraldrinum yrði frekar færð sóttvarnayfirvöldum. Ég gat ekki betur skilið hæstv. ráðherra rétt áðan en að hún biðlaði einnig til þingsins. Orð hæstv. heilbrigðisráðherra í ræðunni áðan opinbera vandann. Frumvarpið er að hennar sögn algerlega markað af þeirri stöðu sem við erum í núna, 21. apríl 2021. En lög verða að vera skýr, frú forseti. Þau verða að vera nokkuð fyrirsjáanleg og þau verða að vera þannig að við skiljum þau og tilgang þeirra. Við vitum ekkert hvernig þessi heimsfaraldur mun hegða sér í næstu viku enda vissum við ekki í síðustu viku að við stæðum hér í dag með 100 smit. Þess vegna er óvarlegt að hafa þessa heimild svona ofboðslega þröngt skilgreinda.

Frú forseti. Það eru nokkrir þættir sem verður að hafa í huga umfram þetta íslenska afbrigði á skilgreiningu sem ég hef nú þegar nefnt. Í fyrsta lagi er um að ræða bráðabirgðaákvæði í sóttvarnalögum með mjög knappan gildistíma eða til 1. júlí næstkomandi. Vissulega eru væntingar stjórnvalda í dag þess efnis að bólusetningar muni ganga vel hér innan lands en við verðum að átta okkur á því að um heimsfaraldur er að ræða og þetta er ekki eingöngu í okkar höndum. Heimsfaraldurinn tekur breytingum. Ný afbrigði koma fram sem leggjast frekar á nýja hópa en ekki þá sem áður voru, ný afbrigði koma fram sem smita meira eða smita jafnvel minna eftir tegundum. Við vitum ekkert hver staðan verður á faraldrinum á heimsvísu þann 1. júlí, ekki frekar en við vissum hvernig staðan yrði í dag þegar við horfðum fram á veginn þann 1. mars síðastliðinn. Við vitum heldur ekki hver árangurinn verður af bólusetningum í heiminum þann 1. júní. Við vitum það eitt að Alþingi verður í sumarhléi á umræddum tíma og því þarf að kalla alla þingmenn til starfa ef framlengja þarf umrædda lagaheimild. Það eitt og sér er óheppilegt. Það er þröskuldur á vegi okkar að hafa þetta með þeim hætti þegar við þurfum að hafa heimildir til að bregðast hratt við. Það að veita lengri tímafrest brýtur ekki gegn meðalhófi því að fyrir liggur að í sóttvarnalögum er hvort tveggja um að ræða skýrt ákvæði um að ráðherra gæti meðalhófs í aðgerðum sínum sem og skýrt ákvæði í 13. gr. um að beita megi ákveðnum aðgerðum ef vísbendingar eru um að lýðheilsa sé í yfirvofandi hættu. Það er þar, herra forseti, sem við ættum að bæta við heimild um að skylda fólk til dvalar í sóttvarnahúsi. Það ákvæði má finna í frumvarpi þingflokks Samfylkingarinnar sem mælt verður fyrir hér á eftir.

Ákvæðið um meðalhóf var sett í lögin við síðustu breytingar og segir að ráðstöfunum skuli ekki beita nema brýn nauðsyn krefji til verndar heilsu og lífi manna. Við beitingu sem og afléttingu ráðstafana skuli gæta meðalhófs og jafnræðis og taka tillit til annarra verndarhagsmuna, einkum þeirra sem njóta verndar stjórnarskrár og mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að. Þetta tvennt veitir okkur vernd gegn því að stjórnvöld grípi til valdníðslu. Færi svo geta þeir sem telja sig órétti beitta leitað til dómstóla, eins og gerðist með reglugerð ráðherra sem skorti lagastoð. Vegna breytinga á frumvarpi ráðherra í byrjun ársins hjá hv. velferðarnefnd tekur málsmeðferð fyrir dómi mjög skamman tíma, rétt eins og aðrar málsmeðferðir dómstóla í þvingunaraðgerðum. Þess vegna er óhætt að við setjum nú lagaákvæði sem heldur, lagaákvæði sem aðstoðar okkur raunverulega í baráttunni við veiruna, lagaákvæði sem veitir stjórnvöldum heimild til að grípa fljótt til nauðsynlegra og ófyrirsjáanlegra aðgerða.

Að þessu slepptu vil ég ræða önnur atriði frumvarpsins, þ.e. hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að fari með þá ferðamenn sem þegar hafa smitast af veirunni eða hafa fengið bóluefni. Ekkert er að finna í frumvarpinu, greinargerð né drögum að reglugerð sem tekur á þessu heldur er eingöngu fjallað um hvernig taka eigi á umsóknum um undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi fyrir þá sem koma frá svæðum með nýgengi smita á bilinu 750–1.000 á hverja 100.000 íbúa. Þannig er fyrirsjáanleikinn fyrir ferðamenn auðvitað enginn, enda getur enginn ferðamaður vitað hvernig ástandið verður í búsetulandi hans að nokkrum vikum liðnum. Þannig að þeir einir sem bóka sér far með nánast engum fyrirvara geta vitað hvort hluta tímans verði varið í sóttvarnahúsi eða heimahúsi.

Herra forseti. Ákvæði um breytingu á útlendingalögum er sömu annmörkum háð og ég hef áður komið inn á er varðar skilgreiningu á hááhættusvæði sem og það tímamark sem gefið er, eða til 1. júlí næstkomandi. Já, herra forseti, ég held að ég megi fullyrða hér í þessum ræðustól að við hæstv. heilbrigðisráðherra viljum báðar það sama. Við viljum báðar gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja landið fyrir veirunni voðalegu. Það vildi ég í byrjun árs, það vildi ég fyrir fjórum vikum þegar ég átti orðastað við hæstv. ráðherra hér í þingsal og það vil ég núna, herra forseti. Og ég trúi því að hæstv. heilbrigðisráðherra vilji það líka. Ég mun styðja hana í því en þá vil ég benda henni á að í frumvarpi þingflokks Samfylkingarinnar, sem einnig verður mælt fyrir um í dag, er einmitt veitt heimild sem veitir ríkari vernd á landamærum, vernd sem almenningur á Íslandi hefur kallað eftir háværum rómi. Í því frumvarpi er einnig að finna nýja skilgreiningu á sóttvarnahúsi, skilgreiningu sem er ekki jafn takmarkandi og þær tillögur sem bárust hv. velferðarnefnd frá heilbrigðisráðuneytinu við meðferð nefndarinnar á frumvarpinu sem var í vinnslu í byrjun ársins, skilgreiningu sem svo varð að ákvæði í sóttvarnalögum. Með því að veita víðtækari heimild eigum við möguleika, ef þurfa þykir, herra forseti, á að veita víðtækari vernd. Sóttvarnayfirvöld þurfa nefnilega stundum að geta brugðist við með skjótum hætti, með tilliti til þess síbreytileika sem veiran hefur nú kennt okkur og sýnt okkur. Við erum að fást við veiru sem við vitum ekki hvernig mun hegða sér í næstu viku eða þeirri þarnæstu en sóttvarnalögin innihalda, eins og ég áður sagði, þetta temprandi ákvæði á vald stjórnvalda. Því þurfum við ekki að óttast að þau fari fram úr hófi eða að ástæðulausu.

Herra forseti. Í niðurlagi frumvarps hæstv. ráðherra segir að heildarmarkmið frumvarpsins sé, með leyfi forseta, „jafnframt að skýra betur þær heimildir sem stjórnvöld hafi til opinberra sóttvarnaráðstafana í samræmi við kröfur lögmætisreglunnar og lagaáskilnaðarreglna stjórnarskrárinnar“. Það tel ég því miður ekki hafa náðst með þessu frumvarpi. Við þurfum einmitt að vera skýr og skiljanleg í lagasetningu hér á landi ef við viljum að almenningur fari eftir þeim reglum sem við setjum. Við verðum núna að standa með landi og þjóð og bregðast við með afgerandi hætti svo að almenningur og ferðafólk skilji hvert við stefnum og í hvaða tilgangi.