151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Píratar telja farsælustu leiðina til að standa vörð um réttindi fólks í heimsfaraldri að styrkja sóttvarnir á landamærum. Valið akkúrat núna stendur á milli þess að setja harðar takmarkanir innan lands eða harðar takmarkanir á landamærunum. Það er mat Pírata að þær síðarnefndu tryggi heilt yfir betur réttindi borgaranna. Við munum því styðja lagabreytingar sem miða að því að renna stoðum undir dvöl á sóttvarnahótelum. En að mörgu þarf þó að huga við framkvæmdina. Framkvæmdin er lykilatriði. Það þarf að tryggja að útfærslan á sóttvarnahótelum standist önnur lög og stjórnarskrá og það þarf að vera fullvíst að útfærslan gangi ekki lengra en nauðsyn krefur. Fólk þarf að vera upplýst með góðum fyrirvara um hvað bíður þess við komuna til landsins og gestir sóttvarnahótelanna þurfa að hafa rétt til útivistar, það verður að tryggja viðunandi aðstæður barna og fólks í sérstaklega viðkvæmri stöðu o.s.frv. Við teljum slíka útfærslu á sóttkvíarhótelum farsælustu leiðina til að standa vörð um réttindi borgara þessa lands og farsælustu leiðina til að tryggja eðlilegt líf innan lands. Það er það sem við erum að standa vörð um, eðlilegt líf innan lands.

Frumvarp um sóttvarnir á landamærum, sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar og við ræðum núna, er alls ekki gallalaust. Til að mynda er útfærslan á framkvæmd sóttvarnahótelanna óljós á þessu stigi og mun ég beita mér fyrir því að hún verði gerð skýrari þannig að frumvarpið nái tilsettum árangri og að ríkisstjórnin verði ekki aftur gerð afturreka fyrir dómstólum. Undanþáguheimildir og hvað séu ónauðsynlegar ferðir er frekar óskýrt og þarfnast tæmandi útlistunar. Ef stjórnvöld ætla sér að takmarka réttindi borgaranna er lágmarkskrafa að þau útlisti nákvæmlega hvaða reglur séu í gildi, um hvaða fólk og hvers vegna þessar reglur séu taldar nauðsynlegar.

Stærsta athugasemdin sem Píratar gera á þessu stigi máls lýtur hins vegar að skilgreiningu ríkisstjórnarinnar á þessum svokölluðu hááhættusvæðum en það liggur ekki fyrir hvers vegna ríkisstjórnin telur þörf á að búa til sína eigin skilgreiningu í þessu máli og hvers vegna stuðst er við nýgengi smita upp á 750–1.000 á hverja 100.000 íbúa þegar Sóttvarnastofnun Evrópu og sóttvarnalæknir hafa sagt að hááhættusvæði séu með nýgengi upp á 500 eða meira. Þetta verður að vera skýrt.

Að sama skapi liggur ekki fyrir hvers vegna ríkisstjórnin heimfærir smittölur úr einstökum héruðum yfir á löndin í heild, það er eitthvað sem mér finnst ekki vera búið að útskýra nægilega vel eða var alla vega ekki útskýrt nægilega vel á kynningarfundinum í gær.

Þessar séríslensku útfærslur eru til þess fallnar að valda óþarfa upplýsingaóreiðu um þær reglur sem gilda við komu til landsins og það getur verið hættulegt. Ef upplýsingarnar eru ekki nægilega skýrar eru minni líkur á að fólk fylgi reglunum. Okkur finnst eðlilegt að reglurnar séu bara einfaldar, skýrar og í samræmi við alþjóðleg viðmið til að koma í veg fyrir þennan rugling vegna þess að skýrar reglur auðvelda okkur öllum að fara eftir þeim. Ef stjórnvöld vilja yfir höfuð styðjast við skilgreiningu á hááhættusvæðum teljum við að mörkin ætti að vera nýgengi upp á 500 eða meira eins og Sóttvarnastofnun Evrópu og sóttvarnalæknir hafa nefnt. En það er svo sannarlega ekki krafa vísindasamfélagsins að taka upp séríslenskan mælikvarða. Þau sem koma frá svæðum með lægra nýgengi eða eru í viðkvæmri stöðu geta síðan sótt um undanþágur eða eiga að geta sótt um undanþágur frá dvöl á sóttvarnahóteli. Það þarf að tryggja að svörin berist tímanlega þannig að fólk viti alltaf hvað taki á móti því, að hverju það gengur við komuna til landsins.

Forseti. Nú setjum við lög sem takmarka réttindi fólks. Þá er lágmark að við gerum okkar allra besta til þess að lögin nái settu marki. Markmiðið er að gera okkur sem hér búum kleift að lifa sem eðlilegustu lífi með því að hindra það að smit berist í gegnum landamærin. Tillaga ríkisstjórnarinnar er að við setjum okkur lægri viðmið en allar aðrar þjóðir í Evrópu um hvað telst vera hááhættusvæði og ég get ekki séð annað en það stefni öryggi landsmanna í meiri hættu og það er líka bara ekki til þess fallið að ná tilsettu markmiði.

Ég vona að við náum að vinna þetta vel í nefndinni og við fáum svör við öllum þessum álitamálum. Ég er alveg opin fyrir því að mögulega sé ég að lesa þetta rangt því að við eigum fullt af vinnu eftir í velferðarnefnd. Það hefði verið óskandi að þessi vinna hefði getað komið fyrr til þingsins, að við hefðum haft raunverulegan tíma til að rýna í málið og passa upp á að við séum ekki að gera nein mistök. En því verður ekki breytt úr þessu og það er til mikils að vinna að gera þetta vel. Ég og við Píratar munum leggja okkar af mörkum svo að við getum lifað sem eðlilegustu lífi sem allra, allra fyrst.