151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[16:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga, sóttvarnahús og för yfir landamæri. Þegar heilbrigðisráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi áðan hjó ég eftir þeirri ótrúlegu fullyrðingu hennar að staðan okkar væri mun betri og því ættum við að fara varfærnislega af stað. Ég er ekki sammála vegna þess að staða okkar vegur eiginlega salt. Við vitum ekki hvort veiran er að fara af stað af fullum krafti eða hvort við náum að stöðva hana. En það er alveg skýrt mál að við stöðvum ekki veiruna nema við setjum tappa í lekann frá landamærunum. Með þessu frumvarpi er því miður langt í frá verið að gera það. Nýjustu fréttir, sem eru eiginlega stórfurðulegar, voru að koma á Vísi, þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra fullyrti að það væru á leiðinni 16.000 skammtar af AstraZeneca frá Noregi sem Norðmenn væru að lána okkur. TV2 í Noregi fór að kanna þetta og fór í heilbrigðisráðuneytið, að mér skilst, í Noregi og þeir komu bara af fjöllum, höfðu ekki hugmynd um þetta. En ráðuneytið segir að þetta sé svona og það hefði ekki sett þetta út nema það væri pottþétt. Ég veit ekki hvort þetta sé enn eitt furðumálið sem er á sveimi í þessum málum ríkisstjórnarinnar í sambandi við Covid-19.

Ef við bara rétt kíkjum á þetta, bæði lögin og reglugerðina, og tökum reglugerðina þar sem talað er um bann við ónauðsynlegum ferðalögum frá skilgreindum áhættusvæðum kemur þessi stórfurðulega upptalning:

„Ákvæði 1. mgr. á ekki heldur við um útlendinga sem koma til landsins vegna brýnna erindagjörða, þ. á m. eftirtalda aðila:

a. Farþega í tengiflugi.

b. Starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu.

c. Starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu.

d. Einstaklinga sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd.

e. Einstaklinga sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni.

f. Einstaklinga og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda, starfsmenn sendiskrifstofa og aðra fulltrúa erlendra ríkja, starfsmenn alþjóðastofnana og einstaklinga í boði þeirra sem þurfa að koma til landsins vegna starfsemi þessara stofnana, fulltrúa herliðs, og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð og almannavörnum og fjölskyldur framangreindra aðila.

g. Námsmenn.

h. Einstaklinga sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna viðskipta eða starfa sem eru þess eðlis að þau er ekki hægt að framkvæma síðar eða erlendis.“

Þetta segir okkur bara hreint og beint að það er ekki verið að setja neinn tappa í landamærin til þess að stöðva Covid-19. Landamærin virðist eiga að vera áfram míglek. Eina leiðin til að stöðva þetta er að fara að því sem Flokkur fólksins setti út. Við gerum þá kröfu að allir ferðamenn sem koma til landsins skuli dvelja í sóttvarnahúsi eigi skemur en sjö daga frá komu til landsins og ferðamaður skal greiða fyrir dvöl á sóttvarnahúsi. Hugsið ykkur alla þessa upptalningu sem ég las upp áðan, að við séum að borga þetta, þjóðin, meira að segja fyrir menn í alls konar viðskiptum sem eru á viðskiptaferðalagi og jafnvel fólk sem er að koma hingað til landsins til að skoða eldgosið á Reykjanesi. Á sama tíma og þetta er að gerast þá spyr ríkisstjórnin með undrun og með furðusvip: Hvar í ósköpunum á að fá peninga fyrir þá sem hafa verið innilokaðir í meira en ár í þessum Covid-faraldri og eru loksins núna að fá bólusetningu, þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma? En það virðast vera til nægir peningar fyrir allt annað en það. Þarna virðist vera alveg ótæmandi brunnur. Það er eiginlega stórfurðulegt að við skulum vera á þessum stað vegna þess að þjóðir í kringum okkur, eins og Norðmenn og Bretar, láta þá einstaklinga borga fyrir.

Við segjum líka:

„Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum.“

Við erum þarna með mjög þrönga undanþágu og mjög strangt skilyrði, bæði að húsnæði verði að vera til staðar og viðkomandi sætti sig við eftirlit.

Eins og hefur komið hérna fram eru furðulegar þessar tölur sem verið er að setja út, 750 smit á hverja 100.000 íbúa, 1.000 á hverja 100.000 íbúa, hvort sem það er innan fylkis, innan landa eða sýslna. Við eigum ekki einu sinni að vera að ræða þetta. Við eigum að hafa þetta eins einfalt og hægt er, einfalt þannig að allir sem koma til landsins fari í sóttvarnahús, þeir borga sjálfir, eru í sjö daga og örfáar undantekningar. Eins og kemur hérna fram líka hjá okkur þarf að sækja um þessar undantekningar með tveggja daga fyrirvara.

Við verðum líka að átta okkur á því hvar brotin fara fram. Við erum með það alveg á hreinu að veiran sem nú er í gangi í landinu kom í gegnum landamærin. Hvað segir það okkur? Jú, ef við hefðum stoppað upp í þetta gat eins og við héldum að við værum að gera þegar við breyttum sóttvarnalögum í vetur — maður trúði því statt og stöðugt að við værum að ganga frá þessu og værum búin að læra af reynslunni og værum komin á þann stað að við værum farin að læra líka af Nýja-Sjálandi og Ástralíu og þeim svæðum sem eru búin að sýna hvernig á að fara að þessu. Nei, einhvern veginn tókst okkur gjörsamlega að klúðra því, gjörsamlega. Var brugðist við strax? Nei.

Nú er verið að bregðast við og það er algjörlega í skötulíki. Þetta frumvarp leysir engan vanda ef það fer í gegn. En er það skárra? Kannski eitthvað. Þess vegna vona ég heitt og innilega að til þess að gera þetta eins pottþétt og hægt er muni breytingartillaga Flokks fólksins verða samþykkt.

Það kom líka fram hjá heilbrigðisráðherra að af þeim sem hafa verið bólusettir hafi eitt próf dugað vegna þess að þeir hafi sýnt að þeir væru ekki smitaðar. En staðreyndin er sú að það er ótrúlegur fjöldi sem hefur ekkert verið smitaður við fyrstu skimun við landamærin en akkúrat bullandi smitaður í seinni skimun. Þetta segir okkur að við getum ekki treyst því að þetta haldi. Við verðum líka að átta okkur á því að t.d. nýjasta tilfellið á Nýja-Sjálandi um smit sem komst þar inn var vegna þess að starfsmaður var að þrífa flugvél frá rauðu svæði. Hugsið ykkur, starfsmaður fer að þrífa flugvél frá rauðu svæði og hann smitast. Þeir taka á því alveg um leið.

Við eigum víst að vera rosalega heppin miðað við það sem heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin segir, miðað við þær aðstæður sem við erum með hér. En við höfum séð það, 15.000 manns að skemmta sér á Nýja-Sjálandi á tónleikum, enginn með grímu, allir frjálsir. Við vitum það og við erum alveg með það á hreinu hvernig við vorum síðasta sumar. Við gátum ferðast um. En þetta er allt farið. Það sem er eiginlega sorglegast er að við þurfum kannski ekki hafa þetta nema í rúma tvo mánuði, við vitum það ekki en vonandi ekki lengur, hefðum við bara haldið haus þangað til við værum búin að bólusetja elsta hópinn og alla þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.

Það var talað um að við værum með ótrúlega þægilega stöðu miðað við Evrópu. Þetta er jú að mörgu leyti aðeins þægilegra en því miður, það sýnir bara svart á hvítu hvernig Evrópusambandið hefur klúðrað málum þar og þjóðir þar innan og bólusetningarmálunum. Það er bara staðfesting á því að við þurfum ekkert að vera sérstaklega stolt yfir því að vera aðeins betri en Evrópa. En við erum langt á eftir hinum sem stóðu sig langbest. Það er það sem við eigum að miða við og það er það sem við þurfum að taka á.

En við megum ekki gleyma því og við verðum að átta okkur á að við erum ekki búin að fá vissu á afleiðingunum hjá þeim sem smituðust, stöðu þeirra sem hafa smitast og eru að segja okkur frá því að þeir finni fyrir einkennum mörgum mánuðum seinna. Þarna erum við bæði að tala um eldra fólk, miðaldra og jafnvel ungt fólk. Eigum við að trúa því að það sé ásættanlegt? Ætlum við að sætta okkur við það, jafnvel þegar við erum komin fram að 7. júní þegar þeir ætla að fara að taka upp litakóðunarkerfið og annað og við erum kannski ekki búin að sprauta alla, að börnin okkar fái veiruna og við vitum ekki hvaða langtímaafleiðingar það hefur? Ég segi nei, við eigum alls ekki að sætta okkur við þetta, ekki á neinn hátt. Við eigum ekki að sætta okkur við það núna að skólahaldið geti farið í algert uppnám. Við sjáum að heilu hóparnir á leikskólum og skólum eru að fara í sóttkví vegna smita og við vitum hvernig íþróttastarfið hefur verið. Fermingar og afmæli og annað. Þetta hefði allt verið í lagi ef við hefðum staðið okkur og staðið í lappirnar. Ef við hefðum séð til þess á sínum tíma þegar við vorum að taka sóttvarnalögin í gegn að gera hlutina rétt.

Ég verð að segja að það kom mér gífurlega á óvart hvernig var hægt að snúa því gjörsamlega á haus sem við vorum að gera í velferðarnefnd. Það sem við vorum að gera og það átti að vera tilgangurinn var að sjá til þess að yfirvöld hefðu þau tæki og tól í höndunum sem þyrfti til þess að stoppa veiruna við landamærin og við gætum þá verið í góðum málum þangað til bólusetningin væri að fullu komin fram og við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að smit kæmi inn og myndi smita fullt af fólki. En því miður, það varð ekki.

Eins og ég hef komið að þá hugnast mér þessi lagabreyting ekki, fyrir utan að lögin eiga að gilda frá 22. apríl til 30. júní, eins og hefur komið fram. Við í Flokki fólksins hefðum viljað hafa þetta mun lengri tíma, jafnvel fram á haustið, október, nóvember. Það segir sig sjálft að það þarf auðvitað ekki að grípa til þessarar heimildar ef veiran er farin og allt er komið í lag. Þess vegna er betra að hafa þetta lengur heldur en að þurfa að fara aftur að kalla þing saman í miðju sumarfríi til framlengingar ef á þarf að halda.

Eins og hefur komið fram í fréttum segir sérnámslæknir þessa reglugerð óskýra og háar nýgengistölur — það er bara fullt af læknum og fullt af fólki sem er ekki sátt við þetta, vill taka harðari afstöðu. Við í Flokki fólksins teljum okkur bera þá ábyrgð að leggja það fram að reyna að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að við stöðvum lekann á landamærum og við gerum allt sem við getum til að hafa landið veirufrítt þannig að við getum haft bullandi gott sumar, vonandi án veirunnar. En til þess þurfum við að fá samþykkta breytinguna sem við leggjum fram.