151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[16:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að koma inn í þessa 1. umr. og nefna nokkur atriði, kannski svolítið sundurlaus, en atriði sem mér finnst að þurfi að huga að í meðferð málsins hér í þinginu. Ég vildi fyrst segja að ég held að það sé í sjálfu sér mikið fagnaðarefni að við fáum tækifæri til að ræða þetta í þinginu. Tilefnið er það að sóttvarnareglugerð heilbrigðisráðherra þótti skorta viðeigandi lagastoð og tilgangur frumvarpsins er að stórum hluta að mæta þeim skorti, þ.e. að færa viðeigandi lagastoð fyrir aðgerðum af því tagi sem hæstv. ráðherra mælti fyrir um í reglugerðinni sem ekki stóðst fyrir dómi. Það er út af fyrir sig gott. Ég er þeirrar skoðunar og lýsti þeirri skoðun, reyndar almennt í umræðum hér um breytingar á sóttvarnalögum nú fyrr í vetur, að þegar teknar eru ákvarðanir sem fela í sér einhvers konar skerðingu á borgaralegum réttindum sé eðlilegt að það sé þingið sem geri það en ekki framkvæmdarvaldið. Það sé skýr krafa að löggjafinn taki afstöðu til þess með skýrum hætti til hvaða skerðinga á borgaralegum réttindum megi grípa og á hvaða forsendum. Að því leyti fagna ég framkomu þessa frumvarps, sem rennir vissulega skýrari stoðum undir þær hugmyndir sem uppi voru af hálfu heilbrigðisyfirvalda hér fyrir fáeinum vikum en áður voru fyrir hendi.

Formlega séð sýnist mér að þarna sé komin stoð sem uppfylli grunnkröfur lögmætis- og lagaáskilnaðarreglu. En ég legg til að hv. velferðarnefnd, sem fær þetta til skoðunar, veiti því samt sem áður nokkra athygli hvort um fullnægjandi lagastoð er að ræða í ljósi skýrleika. Mér sýnist að þetta fullnægi því í meginatriðum en ég held að það sé samt ástæða til að nefndin velti þessu fyrir sér og spyrji gesti út í það, vegna þess að skýrleiki lagastoðarinnar þarf að vera hafinn yfir allan vafa, ekki síst í ljósi undangenginna atburða.

Nú er það hins vegar svo að þegar lög eru sett þarf að hafa fleira í huga en bara það að lagastoðin sé skýr þegar gengið er nærri stjórnarskrárvörðum réttindum, borgaralegum réttindum sem mannréttindakafli stjórnarskrárinnar verndar. Þá þarf auðvitað að huga að fleiri þáttum. Það er ekki nægilegt að það sé sett fram með skýrum hætti í lagatexta að það megi, það verða fleiri skilyrði að vera uppfyllt. Að þessu sögðu vil ég nefna að mannréttindaákvæðin heimila slíka skerðingu undir þeim kringumstæðum að það sé nauðsynlegt vegna einhverra lögmætra markmiða, það er alveg á hreinu. Mannréttindaákvæðin eru þannig sett fram í stjórnarskránni að þau réttindi sem ákvæðin eiga að verja má skerða að tilteknum skilyrðum uppfylltum. En það er samt ekki nægjanlegt að segja: Skilyrðin eru uppfyllt, almannahagsmunir krefjast þess, verið er að grípa til aðgerða til að verja líf og heilsu. Það þarf líka við útfærslu ákvæðanna, við útfærslu skerðingarinnar, að gæta að ýmsum þáttum.

Þar reynir ekki síst á tvær meginreglur; annars vegar jafnræðisreglu, því að það verður að gæta þess í útfærslu lagaákvæða af þessu tagi að þau feli ekki í sér mismunun milli hópa á einhverjum ómálefnalegum forsendum, og svo er hins vegar regla sem reynir kannski meira á í þessu tilviki þó að jafnræðisreglan sé vissulega þess eðlis að hana þurfi að skoða í sambandi við útfærslu þessara ákvæða, það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það geta verið grá svæði þarna þegar kemur að túlkun jafnræðisreglunnar. En það er einkum meðalhófsreglan sem hafa þarf í huga í þessu. Meðalhófsreglan birtist með ýmsum hætti í þessu og ég játa að það er greinilegt að frumvarpshöfundar hafa horft meira til meðalhófsreglu við útfærslu þessa frumvarps en manni hefur stundum þótt áður. En engu að síður tel ég að það þurfi að huga svolítið betur að henni þegar málið fær sína meðferð hér í þinginu.

Þá vildi ég nefna, herra forseti, ákveðinn gátlista, ákveðnar spurningar, ákveðnar viðmiðanir sem hafa þarf í huga þegar verið er að meta hvort meðalhófsreglan sé virt, hvort henni sé fylgt við útfærsluna. Í fræðikenningum hafa mótast ákveðnar hugmyndir um það hverju meðalhófsmat eða það próf, hvort sem það eru lagaákvæði reglugerðarákvæði eða einstakar ákvarðanir stjórnvalda, þurfi að lúta á þessum forsendum. Það hafa mótast ákveðnar vinnureglur um hvaða spurninga þarf að spyrja og hvaða viðmið þurfa að vera í lagi þegar metið er hvort íþyngjandi aðgerðir, hvort sem það er í lagaákvæði, reglugerðarákvæði eða ákvörðunum stjórnvalda, standist meðalhóf. Áður en ég nefni þessi meginviðmið eða meginspurningar, grundvallarspurningar sem þarf að spyrja, vil ég nefna að meðalhófsreglan er bæði óskráð og skráð regla. Segja má að stjórnarskrárákvæði almennt verði að lúta meðalhófsmati sem felur þá í sér það almenna viðmið að ekki megi ganga lengra en nauðsynlegt er hverju sinni. En svo fela einstök mannréttindaákvæði líka í sér ákveðna útfærslu í því sambandi eða ákveðnar viðmiðanir. Svo er meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins kannski enn þá skýrari eins og hún er sett fram í stjórnsýslulögum. Það reynir á þá reglu, kannski ekki við lagasetninguna sem slíka heldur þegar stjórnvöld, handhafar framkvæmdarvaldsins, taka við af löggjafanum og útfæra reglurnar og framkvæmd þeirra á sínum forsendum.

En af því að tíminn er takmarkaður í þessu þá ætla ég að láta nægja að rifja upp þessar fjórar meginspurningar eða meginpróf sem lagaákvæði, í þessu tilviki, verða að lúta til að teljast vera í samræmi við meðalhófsregluna og þar með samrýmanleg stjórnarskrá og raunar mannréttindasamningum líka.

Grundvallarspurningin er sú hvort um sé að ræða lögmætt markmið, þ.e. hvort markmiðið með lagasetningunni sé lögmætt og í samræmi við stjórnarskrá og aðrar slíkar meginreglur. Þar þarf kannski að huga að einu. Almennt má segja að ef menn setja nægilega víðtæk og almenn og opin markmið megi heimfæra flest þar undir. Ef við segjum: Markmið lagasetningarinnar er að stuðla að betra þjóðfélagi, þá yfirtekur það ansi mikið. Eins ef við segjum: Markmiðið er að vernda líf og heilsu. Það dekkar ansi mikið. Víðtækar skilgreiningar á markmiði eru hins vegar ekki gagnlegar þegar kemur að því að meta hvort viðkomandi tillaga eða viðkomandi skerðing stenst kröfur meðalhófsreglunnar. Það má eiginlega segja að því almennari, opnari og óljósari sem markmiðin eru, þeim mun minna gagn geri þau þegar verið er að meta meðalhófið. Þannig að við þurfum aðeins að átta okkur á því, og ég þykist vita að hv. velferðarnefnd fari yfir það, hver hin skýru markmið þessarar lagasetningar eru. Eru skýru markmiðin þau að það komist ekkert smit inn í landið eða að það sé með einhverjum hætti takmarkað og þá hversu mikið? Í mínum huga er alla vega ekki nægilegt að segja: Markmið þessarar lagasetningar er að vernda líf og heilsu landsmanna. Mér finnst það of víðtækt.

Önnur spurning sem þarf að spyrja er hvort aðgerðin sé það sem kallað hefur verið í fræðunum markhæf, þ.e. hvort hún sé til þess fallin að ná því markmiði sem að er stefnt. Þar held ég að megi segja að tillögur frumvarpsins séu í samhengi. Það er rökrétt samhengi milli þeirra og þeirra markmiða sem að er stefnt. Ég nefni aftur að því óljósara sem markmiðið er, því erfiðara að meta hvort aðgerðin sé til þess fallin að ná því markmiði.

Þriðja atriðið sem þarf að skoða, hæstv. forseti, er hvort valið sé vægasta úrræðið sem að gagni getur komið. Þarna verð ég að segja að mér finnst greinargerð frumvarpsins ekki svara þeirri spurningu. Ég ætla ekki að útiloka að svo geti verið, en mér finnst greinargerðin ekki svara því með skýrum hætti hvort fram hafi farið þannig mat á mismunandi úrræðum í þessu sambandi að það leiði til þeirrar niðurstöðu að hægt sé að segja að þetta sé ótvírætt vægasta úrræðið sem að gagni getur komið. Það má síðan tengja þetta við spurninguna um hvort við framkvæmd úrræðisins sé gengið eins skammt og hægt er eða nauðsynlegt er. Það er erfiðara að meta það og það reynir kannski meira á það í framkvæmd og þegar málin eru komin á framkvæmdarvaldsstigið. En ég set hins vegar helst spurningu við það sem ég nefndi áðan, þ.e. hvort það liggi fyrir, hvort það hafi verið rökstutt með nægilega greinargóðum hætti, að það úrræði sem hér er verið að boða, þá sérstaklega í 1. gr. frumvarpsins, sé vægasta úrræðið sem völ er á og að gagni getur komið.

Fjórða spurningin sem við þurfum að spyrja okkur í þessu sambandi tengist síðan meðalhófsmati í þrengri merkingu, eins og það hefur verið kallað. Það er þá mat á því að þegar búið er að velja vægasta úrræðið sem völ er á og búið er að ganga þannig frá því að ekki sé gengið lengra í því úrræði en nauðsynlegt er þarf að vega og meta annars vegar almannahagsmunina sem eru undir og svo hins vegar þá hugsanlegu einstaklingsbundnu hagsmuni eða alla vega aðra hagsmuni sem til greina koma í þessu sambandi. Það mat getur ráðist af ýmsum þáttum. Það er ekki bara fjárhagslegt mat eða kostnaðargreining eða eitthvað svoleiðis. Það er heldur ekki svo einfalt að segja megi að einhverjir almannahagsmunir trompi alltaf einkahagsmuni. Það þarf að horfa til þess hversu þungbær skerðingin er fyrir þá einstaklinga sem fyrir því verða og þess háttar. Þannig að það er líka mat sem þarf að eiga sér stað í sambandi við þessa lagasetningu.

Ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að tími þingsins til að fjalla um þetta er takmarkaður, en ég vildi þó hér við 1. umr. leggja áherslu á að þessi grunnpróf eða grunnspurningar meðalhófsreglunnar fái nokkurt rými í meðferð hv. velferðarnefndar og að velferðarnefnd geri alla vega það sem hún getur til þess að fullvissa sig um að frumvarpið eins og það er úr garði gert standist þessa mælikvarða.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég hins vegar nefna það, bara svo ég taki það skýrt fram, að frumvarpstextinn sjálfur eða sú regla sem mælt er fyrir í frumvarpinu felur með vissum hætti í sér ákveðin meðalhófssjónarmið. Þar horfi ég til þess að gildistíminn er takmarkaður. Þetta hefur áður komið til umræðu í dag og einhverjir töldu að þetta væri gagnrýnisvert. En ég tel hins vegar að það sé mikill kostur (Forseti hringir.) að reglunum sé ætlaður tiltölulega skammur tími, ekki þannig að ekki sé hægt að endurskoða það þegar eða áður en kemur að því að þær renni sitt skeið á enda, en það er ákveðið meðalhóf fólgið í því að þegar verið er að bregðast við bráðabirgðaaðstæðum sé það gert með tímabundinni lagabreytingu, ekki varanlegri.