151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög.

743. mál
[17:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi bara: Húrra. Þetta er glufan sem sólin hefur skinið inn um hér í þingsal í dag, a.m.k. hvað lýtur að því að reyna að koma til móts við okkur sjálf hér innan lands enn frekar. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þetta frumvarp, sem við munum styðja. Að vísu komum við með breytingartillögu við frumvarpið. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Þegar kom til þess að skrifa frumvarpið, voru ekki á borðinu neinar vangaveltur um það hvernig til hefur tekist hjá Nýsjálendingum og Áströlum og í Taívan, þar sem allt er í blóma, þar sem engar bylgjur verið og allt gengur eins og smurð vél? 700.000 manns voru saman á landbúnaðarsýningu þar um daginn og engar grímur og ekki neitt. Hafið þið í Samfylkingunni ekki velt fyrir ykkur einhverju í þá áttina? Hafið þið ekki velt fyrir ykkur að taka gjald, eins og breytingartillaga Flokks fólksins felur í sér, sem er algjörlega byggt á áströlsku leiðinni, að komumenn greiði sjálfir fyrir sína sóttkví en ekki íslenskir skattgreiðendur? Hugsunin var sú að þarna væri í rauninni ákveðinn hvati til að reyna að hamla för, fækka ferðum, ónauðsynlegri för um landamærin á meðan við værum að sigra þessa veiru. Við Guðmundur Ingi, gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, höfum verið að róa ein í þá átt í rúmlega ár, þannig að ég er afskaplega þakklát fyrir að fulltrúar Samfylkingarinnar skuli leggjast á árarnar með okkur núna á lokametrunum.