151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög.

743. mál
[18:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir svarið. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé nákvæmlega það sem felst í frumvarpi Samfylkingarinnar, að reyna að tryggja enn frekar sóttvarnir. Það væri ekki neinum vafa undirorpið ef þeim sem koma til landsins væri ekki mismunað eftir þjóðerni og öðru slíku. Það flokkast líka undir sóttvarnir ef allir eiga að fara í sóttvarnahús. Með því að breyta frumvarpinu þannig og koma til móts við flumbrugang ríkisstjórnarinnar og taka af allan vafa um hvað hugtakið sóttvarnahús felur í sér — ég held að það liggi náttúrlega á borðinu að við getum farið með það nákvæmlega eins og löggjafanum er heimilt, þannig að það væri í okkar verkahring. En ég skal viðurkenna og við sjáum það öll sem viljum að ríkisstjórnin brást ekki við dómi héraðsdóms um daginn. Það er bara þannig. Það er ekki fyrr en núna að smitum fór að fjölga að við fengum einhver viðbrögð.

En aftur þakka ég fyrir að Samfylkingin skuli vera lögst á árarnar með okkur. Við göngum lengra og mismunum ekki fólki sem kemur til landsins. Við horfum ekki á einhver litakóðunarkerfi eða hvort smit eru meiri eða minni í héraði. Ég skil hvað hv. þm. Logi Már Einarsson á við þegar hann er að tala um þessa stórmerkilegu viðmiðunarreglur sem eru að koma inn, annars vegar 750 smit á hverja 100.000 íbúa versus 1.000 smit á hverja 100.000. Það er náttúrlega bara galið og það hljóta allir að sjá að það er varla hægt að ná þeirri tölu. Við þyrftum t.d. að vera með 300 smit á dag í okkar litla samfélagi alla daga ársins ef við ætluðum mögulega að geta náð upp í það. Það er eins og verið sé að koma í veg fyrir það með öllum ráðum og hækka staðalinn langt yfir það sem Sóttvarnasofnun Evrópu gerir, að hækka staðalinn svo mikið að þetta nái, liggur við, ekki utan um nokkurn einasta einstakling á jörðinni.