151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög.

743. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Almennt er markmiðið með frumvarpi okkar að búa til almennar og skýrar leikreglur sem gefa sóttvarnalækni rýmri heimildir til að bregðast við eins og hann telur best, með ábendingum, ráðgjöf og minnisblaði, og ráðherra þá möguleika til að setja reglugerð á grunni þeirra. Ég efast að talsverðu leyti um þá leið sem ríkisstjórnin fer, að ákveða hvort viðmiðið eigi að vera 500, 750 eða 1.000 smit, vegna þess að það getur verið háð svo ofboðslega mörgum breytum. Þó að við þykjumst kunna og vita mikið hér inni erum við a.m.k. ekki jafn vel að okkur í sóttvarnafræðum og okkar bestu sérfræðingar, þannig að við megum ekki heldur samþykkja frumvarp, a.m.k. helst ekki, eins og mælt var fyrir áðan sem bindur hendur sóttvarnayfirvalda. Það getur vel verið að að loknu öllu þessu þurfum við að vega og meta á endanum hvort það sé illskárri kostur að samþykkja það en ekki. En þegar maður vegur og metur þessi tvö frumvörp saman er þetta miklu líklegra til þess að ná því markmiði sem heilbrigðisyfirvöld vilja en það sem rætt var áðan.

Að lokum berast sífellt nýjar fréttir frá sérfræðingum sem dæma þetta frumvarp úr leik. Ef ég skil rétt þá lýsti Læknafélagið því yfir rétt áðan að því lítist illa á þetta áhættumat ríkisstjórnarinnar, enda er það ekki og á ekki að vera á okkar könnu að ákveða það, það getur verið síbreytilegt frá degi til dags og mánuði til mánaðar. Við höfum ákvæðið því vítt og opið þannig að hægt sé að grípa til aðgerða.