151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög.

743. mál
[18:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir framsöguna. Hann leggur augljóslega mikla áherslu á að þær lausnir sem mælt er fyrir í frumvarpi Samfylkingarinnar séu betri en þær sem eru í frumvarpi heilbrigðisráðherra, sem mælt var fyrir hér fyrr á fundinum. Það sem mér leikur hugur á að vita, af því að frumvarpið er ekki efnismikið eða langt: Hvers vegna ekki fyrr en nú, rúmum hálfum mánuði eftir að dómur héraðsdóms fellur varðandi sóttvarnahús? Hver er skýringin á því að Samfylkingin taldi ekki ástæðu til að leggja málið fram fyrr en núna? Nú er það þingmaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, sem fer með þessi mál. Þekkir hv. þm. Logi Einarsson til þess hvort gerðar voru tilraunir til að fá velferðarnefnd til að leggja fram mál í þessa veru, ef mat Samfylkingarinnar var það að ríkisstjórnin ætlaði að heykjast á því?