151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar.

747. mál
[02:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögum við það frumvarp sem við fjöllum um er varðar sóttvarnahús og för yfir landamæri. Breytingartillögurnar er að finna á þskj. 1280. Þær eru svo nákvæmar og eiga við um svo ákveðið orðalag og innskot á orðum að ég ætla ekki að fara að lesa það upp hér, enda verður að segjast að þá yrðu þær harla óskiljanlegar. Innihald breytingartillagna er í samræmi við framlagt frumvarp þingflokks Samfylkingarinnar þar sem ráðherra er veitt heimild til að setja reglugerð er inniber að skylda fólk til dvalar í sóttvarnahúsi. Er sú heimild almenn en ekki með þeim hætti sem við fjöllum hér um í nótt.

Hvað erum við að tala um, herra forseti? Á þessum tíma, frá 1. febrúar til gærdagsins, eða dagsins í fyrradag, hafa greinst 352 smit hérlendis. Við erum nýlega búin að horfa upp á þrjár stórar hópsýkingar. Stærsti hópurinn telur 48 smit sem sendu nokkur þúsund manns í sóttkví. Næststærsti hópurinn taldi 12 smit. Þar fóru 400 í sóttkví . Þriðji hópurinn er með 11 smit og við erum sífellt að fá að vita af fleiri smitum. Þetta er ástandið núna. Við erum með mjög kvikt ástand og við því þarf að bregðast.

En það þarf að vanda til verka. Klukkuna vantar tíu mínútur í þrjú aðfaranótt fimmtudags. Það er ekki að vanda til verka. Öðru sinni erum við að gera breytingar á sóttvarnalögum með algjörlega ófullnægjandi hætti. Að þessu sinni eru breytingarnar heldur ekki í samráði við sóttvarnalækni, landlækni eða þá sérfræðinga sem mættu fyrir nefndina og sögðu: Við þurfum ekki skyndiákvörðun, við þurfum ekki takmarkaða bráðabirgðaheimild. Við vorum svo heppin að þessir gestir sem komu fyrir nefndina, Alma Mölller, Þórólfur Guðnason og Magnús Gottfreðsson, prófessor og yfirlæknir smitsjúkdómalækninga, leyfðu henni að ræða það sem þau höfðu fram að færa. Þau sögðu: Ástandið er það kvikt að við getum borið það saman við að slökkviliðsmaðurinn þyrfti að koma við í Alþingishúsinu við Austurvöll til að eiga orðastað við stjórnmálamennina um hvort hann mætti leggja leið sína að brennandi húsi vestur í bæ, til að fá einhverja heimild í hvert einasta skipti sem hann þyrfti að bregða sér út af slökkviliðsstöðinni.

Sóttvarnayfirvöld þurfa að fá lagaheimild til að geta brugðist við því ástandi sem kemur upp. Þær tölur sem miðað er við frá Evrópu eru tveggja vikna gamlar. Við getum ekki verið að bíða eftir því. Það er ástand hér og nú sem bregðast þarf við hér og nú, ekki eftir tvær vikur. Svo að myndlíkingunni sé haldið áfram verður húsið þá mögulega brunnið til kaldra kola. En svo er auðvitað ekki hér. Við stöndum okkur ágætlega en við þurfum að veita sóttvarnayfirvöldum fullnægjandi heimild. Einhverra hluta vegna þorði ríkisstjórnin ekki að stíga það skref, hún þorði ekki að stíga skrefið til fulls.

Það var svo áberandi á fundi nefndarinnar í dag, kvöld og nótt, með þeim gestum sem komu, að verið var að biðja okkur um að aðstoða alla leið. Það er slíkt hættuástand í heiminum að við erum með heimsfaraldur sem fer ekkert eftir því sem við viljum að gerist. Þess vegna þurfum við að hafa öll tæki til að bregðast við. Einhverra hluta vegna treystir ríkisstjórnin sér ekki heldur til að láta þá heimild sem þó er veitt, duga lengur en til 1. júlí. Áætlun segir að 32.000 ferðamenn muni koma til landsins í næsta mánuði, 32.000 ferðamenn. Við fengum líka upplýsingar um það. Við verðum að setja nauðsynlega heimild í lögin, en þessi vinnubrögð sem við erum vitni að hér í nótt eru í einu orði sagt með öllu óboðleg. Það sýnir stöðuna í ríkisstjórninni að við erum ekki með neinn meiri hluta í nefndinni. Við erum bara með 1. minni hluta. Við erum með fjögur minnihlutaálit.

Sóttvarnalæknir kom ekki að gerð frumvarpsins. Ekki var leitað til hans með ráðleggingar varðandi útfærslu. Þá voru engar skýringar veittar á því hvers vegna svo var ekki aðrar en þær að við stæðum betur en við hefðum gert. Þegar við spurðum sóttvarnalækni og landlækni að því hvort þetta væri rétt, hvort þessi bylgja væri eitthvað betri en önnur bylgjan, hvort fólk veiktist minna núna og hvort þessi afbrigði væru eitthvað vægari og betri við okkur, sögðu þau einfaldlega: Nei, það er ekki svo. Yngra fólkið veikist meira núna. Þessi afbrigði eru meira smitandi, bráðsmitandi, og þess vegna þarf að girða frekar fyrir þann leka sem verið hefur á landamærunum. En þá ætla stjórnvöld að miða við einhver hááhættusvæði, en þó bara til hliðsjónar miðað við nýjustu útgáfu. Þetta eru bara tölur. Ekki skal taka blaðamannafund ríkisstjórnar í Hörpu í vikunni alvarlega af því að þetta eru bara tölur sem miða á við en ekki fara eftir. Þegar spurt var hvort tryggt væri að fólk færi ekki frá einu landi til annars til að fljúga heim frá öruggu ríki ef það byggi í óöruggu ríki, hááhætturíki, var okkur líka tjáð að ekki væri hægt að tryggja það, því miður. Evrópa væri ekki þannig. Þar er bæði hægt að keyra yfir landamæri og taka lest. Við erum því auðvitað með þannig ástand að við þurfum að bregðast hratt og örugglega við með fullnægjandi lagaheimildum.

Það er svolítið skrýtið að eftir allt sem á undan er gengið, eftir að hafa verið rekin til baka með reglugerð sem hafði ekki fullnægjandi lagastoð, stöndum við hér um miðja nótt með þessa ófullnægjandi útkomu, með þessi óboðlegu vinnubrögð. Ég verð að segja að það er ekki beint til að auka traust á þeim störfum sem hér fara fram að þessu sé leyft að fara svona. Ég átta mig ekki á nauðsyn þess að við séum hér um miðja nótt að gera þetta. Hvers vegna var ekki byrjað fyrr? Hvers vegna var ekki brugðist við varnaðarorðunum fyrir fjórum vikum? Hvers vegna var ekki brugðist við þegar niðurstaða héraðsdóms og Landsréttar lá fyrir fyrir tveimur vikum? Hvers vegna var fyrst brugðist við eftir að Samfylkingin hafði lagt fram frumvarp þess efnis að skjóta lagastoð undir nauðsynlegar aðgerðir sem sóttvarnalæknir hafði kallað eftir? Hvers vegna var það fyrst þá að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin fann hjá sér kjarkinn til að reyna að koma fram með eitthvað í líkingu við það sem kallað hafði verið eftir vikum saman, þannig að við fengjum engan tíma til að vinna það, þannig að fimm nefndarritarar hafa setið hér með okkur í alla nótt að reyna að átta sig á því hvernig útkoman eigi að vera þannig að meiri hlutanum líki vel við, þannig að við séum hér að halda ræður klukkan þrjú og alla langi að fara heim af því að allir eru löngu búnir að missa einbeitinguna?

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þessi vinnubrögð á Alþingi Íslendinga.