151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[03:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Það var nefnt hér við 1. umr. þessa máls að hluti af faglegri lagasetningu á þessu sviði, þegar kemur að því að skerða frelsi borgaranna jafn verulega og hér er lagt til, lýtur að mati á hinu svokallaða meðalhófi. Í því felst m.a. mat á nauðsyn lagasetningarinnar og líka á því hvort hægt sé að ná sama árangri, ná sama marki, með vægara úrræði. Ég reifaði það hér í 1. umr. að það væru ákveðin atriði sem ætti að líta til. Ég nefndi það og vil fá að ítreka það hér að mér hefur sýnst við hafa náð mestum og bestum árangri í baráttunni við þessa veiru þegar við höfum hugað að persónubundnum sóttvörnum, þegar hver og einn passar upp á sig og virðir líka annarra manna sóttvarnir. Í meðferð hv. velferðarnefndar á þessu máli var ekkert upplýst um nauðsyn þessarar lagasetningar á þessum tímapunkti. Eins og ég reifaði líka við 1. umr. þá er nýgengi smita á landamærum í lágmarki, hefur sjaldan verið lægra en nákvæmlega núna. Nýjustu fréttir, bara nú í nótt, eru af því að í næstu viku sé von á tugþúsundum skammta af bóluefnum og koma þau til viðbótar þeim bóluefnaskömmtum sem hafa nú þegar verið notaðir og hafa tryggt stærstum hluta viðkvæmra hér á landi bólusetningu og stórum hluta þeirra svokallaða fulla bólusetningu, þótt einn skammtur af öllum þessum efnum virðist jafnvel skila undraverðum árangri í baráttu við veiruna.

Í þessu ljósi finnst mér það skjóta skökku við að lagt sé fram frumvarp sem lýtur að hertum aðgerðum á landamærum við tilteknar aðstæður. Ég vil kannski fyrst nefna að það er að sjálfsögðu vítavert af fólki að virða ekki núgildandi reglur og þær reglur sem hafa verið í sóttvarnalögum um áratugabil um sóttkví og einangrun. Fréttir af slíkum brotum, sóttkvíarbrotum svokölluðum, og þá sérstaklega af brotum á reglum um einangrun, eru auðvitað mikil vonbrigði. Það breytir því hins vegar ekki að sóttkvíarbrot svokölluð eru tiltölulega fá í samhengi hlutanna. Þau hafa verið 122 frá upphafi þessa faraldurs, þar af um 24 á þessu ári. Ég hef ítrekað óskað eftir upplýsingum um það hversu hátt hlutfall af þessum sóttkvíarbrotum er hægt að telja að hafi leitt til smita. Þær upplýsingar fengust ekki í meðferð nefndarinnar en ég tel það grundvallarupplýsingar til að hægt sé að leggja mat á nauðsyn þess að bregðast við svokölluðum sóttkvíarbrotum. Mér virðist að þetta lagafrumvarp eigi rætur að rekja til eins sóttkvíarbrots sem fréttir hafa verið fluttar af, sem hefur svo sannarlega valdið usla í leikskóla hér í höfuðborginni og utan leikskólans, hjá öllum þeim sem tengjast þessum leikskóla. Það er alveg rétt, það hefur vissulega valdið usla. Þó er bara um að ræða þetta eina tiltekna sóttkvíarbrot og ekki fara margar sögur eða fréttir, hvað þá staðfestar upplýsingar, af smitum sem þetta sóttkvíarbrot hefur síðan leitt af sér. Það eru a.m.k. upplýsingar sem ekki fengust fram í nefndinni.

Frumvarpið býður að öðru leyti upp á alls konar ágreiningsefni og það var svolítið rætt í nefndinni. Til dæmis er hægt að deila um það, og menn hafa ekki einu sinni skilið fyrstu fréttir af þessu frumvarpi, og þurftu nefndarmenn jafnvel að hafa sig alla við til að átta sig á því, hvað átt er við með fyrirbærinu hááhættusvæði. Það kemur í ljós að þar er ekki bara átt við einstök lönd eins og ég held að mönnum sé kannski tamt að líta á, þ.e. að eðlilegt væri að aðgerðir af þessu tagi beindust gegn heilum löndum, heldur kemur í ljós að hugmyndir manna voru miklu víðtækari en það. Hááhættusvæði geta verið pínulítil svæði, örsvæði, inni í stóru og fjölmennu landi. Það myndi valda því að heilt land yrði talið hááhættusvæði þó að einungis lítill hluti af landinu uppfylli skilyrði um nýgengi smita og annað sem frumvarpið kveður á um. Þetta er ágreiningsefni sem er óljóst í frumvarpinu sjálfu.

Þá blasir það líka við að hægt er að þrátta töluvert lengi um það hvaða ferðir á milli landa myndu teljast vegna brýnna erindagjörða. Hvaða ferðir eru nauðsynlegar og hvaða ferðir eru ónauðsynlegar? Það er líka hægt að velta því fyrir sér hvenær maður telst hafa sýnt með fullnægjandi hætti, eins og það er orðað í lögunum, að hann geti dvalið heima hjá sér í sóttkví eða einangrun. Þetta eru dæmi um ákvæði í lagatextanum sjálfum, í frumvarpinu, sem ýmsir gestir nefndarinnar hvöttu til að yrðu skýrð frekar, þ.e. að þessir þættir yrðu skýrðir frekar í sjálfum lagatextanum en ekki í greinargerðinni sjálfri, eins og hún er og að einhverju leyti með óljósum hætti, og þaðan af síður í reglugerðinni sjálfri, en nefndin fékk afrit af drögum að hugmynd að reglugerð sem virtist því miður kannski vera víðtækari en frumvarpstextinn, lagatextinn, getur gefið tilefni til. Það var hvatt til þess og rætt um það að þetta þyrfti að skýra.

Í stað þess hins vegar að fara að ráðum þeirra gesta sem nefndin fékk til skrafs og ráðagerða, og fara þá leið að lagatextinn sjálfur væri skýrari um þau viðmið sem þarna eru sett fram, þá liggur fyrir breytingartillaga frá 1. minni hluta nefndarinnar um aukið frjálst mat stjórnvalda. Ég geld varhuga við slíku framsali á valdi sem tryggir bara frjálst mat. Það væri kannski hægt að sjá í gegnum fingur sér með það í einhverjum tilvikum en hér er hins vegar um að ræða þannig mál að mér finnst það ekki heppilegt, svo að ég taki ekki dýpra í árinni, að ganga þannig frá málum að stjórnvald hafi frjálst mat um mikilvægar skilgreiningar í lagatextanum, svo sem eins og um það hvað telst áhættusvæði, hvað telst nauðsynleg ferð eða ónauðsynleg ferð á milli landa og þar fram eftir götunum.

Ég árétta að hér er nefnilega um skerðingu á grundvallarréttindum að ræða og það ber að fara mjög varlega þegar slík skerðing er sett með lögum. Það var líka bent á það af gestum að rétt væri að skoða úrræði sem skerða þetta frelsi sem minnst, þ.e. hvort ekki væru einhverjar vægari leiðir að sama marki. Það kemur líka fram í ágætu erindi sem nefndinni barst frá Amnesty International, sem veitti svo sem ekki sérstaka umsögn um frumvarpið, enda var ekki óskað eftir umsögnum og fáir hafa séð sér fært að veita umsögn um frumvarpið sjálft. Amnesty International sendi þó erindi til nefndarinnar og benti á nýútkomna skýrslu Amnesty International á alþjóðavísu, hún kom reyndar út 21. september á síðasta ári, en hún fjallar einmitt um lögbundna dvöl í sóttvarnahúsum vegna kórónuveirufaraldursins í nokkrum ríkjum Suður-Ameríku. Þar hafa menn, í einhverjum þeim löndum og kannski víðar í heiminum, gengið mjög nærri almennum mannréttindum undir því yfirskini að verið sé að vernda almannahagsmuni vegna kórónuveirufaraldursins. Tilmæli Amnesty International til allra ríkisstjórna í heiminum eru m.a. þau að stjórnvöld tryggi að spjótunum sé ekki sérstaklega beint að eða refsi ákveðnum samfélagshópum með aðgerðum um sóttkví. Það má kannski velta því fyrir sér hvort það stappi nærri því að með þessu lagafrumvarpi, sem undanþiggur nú töluvert marga frá þeim aðgerðum sem hér er þó kveðið á um, sé verið að sérsníða aðgerðir gagnvart þröngum hópi manna. Í tilmælum Amnesty International er líka hvatning þess efnis að stjórnvöld forðist notkun refsiaðgerða eða hótana um þær til að knýja fram framfylgni hertra takmarkana vegna kórónuveirufaraldursins. En það sem skiptir kannski mestu máli hér, þetta eru mörg tilmæli, og ég tel rétt að vekja sérstaka athygli á, eru tilmæli um að tryggja að lögboðinni dvöl í sóttvarnahúsi sé aðeins beitt sem lokaúrræði þegar inngripsminni aðgerðir, eins og t.d. heimasóttkví eftir endurkomu til landsins, hafa reynst árangurslausar eða ef ljóst verður að markmiðum stjórnvalda verði ekki náð með öðrum leiðum. Þetta finnst mér mjög málefnaleg tilmæli til stjórnvalda og ég held að enginn yrði maður að minni að hafa þau að leiðarljósi við allar sóttvarnaaðgerðir. Þá er einmitt hægt að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að ná sömu markmiðum hér á landi með vægari úrræðum en þeim að skylda menn í farsóttarhús, sérstaklega í ljósi þess hversu fá sóttkvíarbrotin hafa verið hér frá upphafi faraldursins og sérstaklega í ljósi þess að ekkert liggur fyrir um hversu mörg þau brot eru sem hafa leitt til smita.

Ég vil að endingu nefna að umboðsmaður barna kom líka fyrir nefndina og benti á að þrátt fyrir að í greinargerð sé vísað til alls kyns sáttmála, EES-samningsins og hvaðeina, þá er ekki einu orði vikið að réttindum barna sem á að hafa í huga samkvæmt alþjóðlega barnasáttmálanum. Þessar sóttvarnaraðgerðir sem nú beinast í fyrsta sinn að börnum, eins og t.d. skimun á landamærum sem er börnum sérlega þungbær og er ekki framkvæmd af fagaðilum á landamærunum, og einnig dvöl í sóttkvíarhúsi í fimm daga, eru dæmi um aðgerðir sem reynast börnum sérlega þungbærar og hefði verið rétt að leggja raunverulegt mat á það hvort aðgerðin sé nauðsynleg og hvort ekki megi ná sama markmiði, sama árangri, með vægari aðgerð.

Ekkert er svo með öllu illt að ekki sé hægt að fagna einhverju, þó að það boði kannski ekkert gott. Þetta frumvarp má þó eiga það sem það á og það er það að það er þó í þessu sólarlagsákvæði. Heimild ráðherranna tveggja til að setja sóttvarnareglugerðir með þessum skerðingum fellur niður 30. júní. Það er alveg ljómandi gott og er hluti af meðalhófinu að þessar aðgerðir þurfi að standa sem styst. Það er líka rétt að vekja athygli á því að hér er bara um að ræða heimild til að setja reglugerð um tilteknar sóttvarnaaðgerðir, ekki skyldu. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra sérstaklega til að hugleiða það hvort þörf sé á því að setja þá reglugerð sem þessi lög heimila. Miðað við drögin sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur kynnt nefndinni að sínu leyti fæ ég ekki annað séð en að hún sé í sjálfu sér tilgangslaus því að hún undanþiggur nánast alla sem manni dettur í hug. Þá held ég að menn eigi ekki að setja slíkar reglugerðir fyrir sýndarmennskuna eina saman. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að hugleiða það raunverulega hvort nokkur þörf sé á þeirri reglugerð sem 2. gr. þessa lagafrumvarps kveður á um.

Þá spyrja menn kannski hví ég hafi ekki getað tekið þátt í þessu nefndaráliti með 1. minni hluta sem hefði þá verið meiri hluti nefndarinnar. Því er til að svara að ég sé mér ekki fært að styðja þetta mál þótt verklagið sé skömminni skárra en margt annað í þessum sóttvarnalögum almennt. Ég tel hins vegar ekki komnar fram, eins og ég hef lýst, nægar skýringar á nauðsyninni. Ég tel að þetta lagafrumvarp gangi miklu lengra en nauðsynlegt er og ég held að hægt sé að ná sama árangri með vægari aðgerðum. Ég tel frumvarpið þess utan vont fordæmi. Það er vont fordæmi til framtíðar, ekki bara í tengslum við veirufaraldurinn sem við eigum við núna heldur gæti sýnt sig í kröfu um sambærilegar aðgerðir út af alls konar öðrum málum, ekki bara heilsufarsmálum og ekki bara veirumálum heldur ýmsum öðrum málum. Ég er ekki tilbúin til að veita því brautargengi að slíkt fordæmi verði fyrir hendi þegar ekki steðjar bráð hætta að almenningi eins og í dag. Hér er verið að búa til mjög flókið kerfi, þunglamalegt, kostnaðarsamt, um tiltölulega einfaldan hlut í samanburði við þá aðferð sem hefur virkað best, sem eru hinar persónubundnu sóttvarnir og samstarf almennings og stjórnvalda um aðgerðir sem ekki eru lögþvingaðar en hafa gefist best.