Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

málefni atvinnulausra.

[13:17]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn þar sem hann rakti í máli sínu starfaátak ríkisstjórnarinnar sem ber heitið Hefjum störf. Það er ánægjulegt að segja frá því á þessari stundu að það fer mjög vel af stað og við erum þegar búin að komast í um 3.000 störf, sem fer langleiðina í helminginn af því sem lagt var upp með.

Hv. þingmaður spyr út í þá sem komnir eru er á félagslegan stuðning hjá sveitarfélögum, af hverju þeir séu ekki inni í þessu átaki. Í fyrsta skipti núna teygjum við slíkt átak aftur í tímann, þ.e. til allra þeirra einstaklinga sem komnir eru á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eða fóru þangað á síðustu sex mánuðum. Sveitarfélag getur nú fengið stuðning til að skapa störf fyrir þessa einstaklinga. Það má segja að við séum að búa til starfaátak í gegnum sveitarfélögin. Það var fundur bara í síðustu viku með fulltrúa Vinnumálastofnunar, ráðuneytisins og fulltrúum allra sveitarfélaga í landinu til að hvetja fólk til að nýta þessa ráðningarstyrki til þess að skapa störf. Mér vitanlega hefur aldrei áður í slíkum átaksverkefnum verið horft til þess að teygja sig inn í fjárhagsaðstoð sex mánuði aftur í tímann. Þannig ég átta mig eiginlega ekki á því, svo ég sé alveg hreinskilinn, hvað hv. þingmaður er að fara, vegna þess að Vinnumálastofnun hefur ekki neitað sveitarfélögum um að skapa slík störf. En ef dæmi eru um að sveitarfélög hafi ekki staðið sig í stykkinu við að skapa slík störf væri jákvætt og fróðlegt að vita um það, og vonandi er þá hægt að leysa það í samstarfi Vinnumálastofnunar, ráðuneytisins og viðkomandi sveitarfélags. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur enda tekið mjög virkan þátt í þessu átaki og ég hef ekki fundið annað en að öll sveitarfélög í kringum landið (Forseti hringir.) hafi lýst vilja til að skapa þann starfafjölda sem þarf til þess að geta náð til þessara einstaklinga einnig.