151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

málefni atvinnulausra.

[13:20]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Eins og þingmaðurinn rakti er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á bilinu 160.000–220.000 kr. á mánuði. Það er þess vegna sem við hvöttum sveitarfélög til þess og létum þetta starfaátak ná til sveitarfélaga, að þau fengju 472.000 plús lífeyrissjóðsgreiðslur, 11,5%, til að skapa störf fyrir þessa einstaklinga. Það gildir um einstaklinga sem verið hafa á fjárhagsaðstoð sex mánuði aftur í tímann og eru í rauninni dottnir út af bótum, búnir að nýta 30 mánaða tímabili sitt og búnir að vera sex mánuði á fjárhagsaðstoð. Þannig að átakið nær yfir þessa einstaklinga í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög. Ef um er að ræða einstaklinga þar sem sveitarfélag hefur ekki brugðist við og skapað starf í staðinn fyrir að greiða út fjárhagsaðstoð, þá vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja það sveitarfélag, ég er ekki með þetta dæmi á borðinu hjá mér, til að skapa störf fyrir viðkomandi einstakling, koma honum í virkni, auka framfærslu hans og draga einnig úr kostnaði sveitarfélagsins. Það er í rauninni rétti vettvangurinn. Þar erum við búin, með gríðarlegum, fjárhagslegum hvötum, mestu fjárhagslegu hvötum sem settir hafa verið í að skapa störf, að hvetja sveitarfélög til þess að gera það og það er ástæða til að nota þennan vettvang til að hvetja til þess.