151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

árásir Samherja á fjölmiðlafólk.

[13:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er kannski þrennt sem skiptir máli hér. Í fyrsta lagi það sem hv. þingmaður nefnir um auðlindarentuna. Það er auðvitað mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga lendi einhverri niðurstöðu í því sem varðar ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá. Það skiptir mjög miklu máli að það verði hluti af grundvallarlögum samfélagsins og það er auðvitað engin tilviljun að hagsmunaverðir stórútgerðarinnar hafi lagst gegn því auðlindaákvæði sem nú er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er kannski ekkert skrýtið af því að þeir óska líklega óbreytts ástands um þessi mál. Ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi svari ákalli þjóðarinnar um það.

Í öðru lagi er hér í þinginu sérstakt frumvarp um aukinn stuðning við einkarekna fjölmiðla sem ég held að sé mjög mikilvægt að verði að lögum. Það skiptir mjög miklu máli fyrir fjölmiðlafrelsi á Íslandi að við styðjum betur við einkarekna fjölmiðla samhliða því að við styðjum við öflugt almannaútvarp. Sjálf lagði ég sem mennta- og menningarmálaráðherra fram mjög skýrar lagabreytingar á sínum tíma sem gerðu það að verkum að ritstjórnarlegt sjálfstæði var sett í lög og staða blaðamanna var styrkt. Síðan er það hvað hver og einn má segja og það er auðvitað flókið að setja tjáningarfrelsinu skorður. En ef stórfyrirtæki sem mikil ítök hafa í samfélaginu misbjóða samfélaginu með málflutningi sínum munu þau missa virðingu þess sama samfélags. Ég held að það sé mjög flókið að setja tjáningarfrelsinu skorður í þeim efnum. Við getum sett skýrar reglur um auðlindanotkunina og stutt betur við fjölmiðla til að sinna hlutverki sínu. En ég held líka að ef menn misbjóða samfélaginu með málflutningi sínum muni það hafa áhrif á stöðu þeirra í samfélaginu.