151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

veiði þorsks á grunnslóð og strandveiðar.

[13:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þessa dagana stendur yfir árlegt hrygningarstopp, það þrítugasta í samfelldri röð. Því var fyrst komið á 1992 og þá hafði Hafró í nokkur ár mælt að klak hefði verið undir meðaltali og hrygningarstofninn kominn í sögulegt lágmark. Á grundvelli þess var ákveðið að gefa þorskinum frið við hrygningu og auka þannig möguleika á betri nýliðun á komandi árum. Aukinn ágangur stærri skipa á grunnslóð sem veiða með dragnót hefur leitt til stórfelldrar veiði á þorski á grunnslóð sem er auðvitað mjög slæmt og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi hug á því að bregðast við þessum ágangi með því að takmarka sókn með dragnót á grunnslóð eins og var hér áður fyrr.

Einnig eru miklar áhyggjur uppi varðandi mikinn meðafla í ýsu. Nánast hvar sem borið er niður við þorskveiðar veiðist ýsa sem meðafli og sums staðar svo mikið af henni að hún er ráðandi í aflasamsetningunni. Þetta gerist þrátt fyrir að menn séu að reyna að forðast þau svæði þar sem ýsan veiðist mikið. Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi hug á því að bregðast við þessari miklu ýsugengd og ef hann hefur hug á því hvernig hann hyggist framkvæma það og hvenær útgerðir geti átt von á einhverjum viðbrögðum við þessu vandamáli, sem er vissulega vandamál og hætta á brottkasti ef ekkert verður að gert eða að menn þurfi að binda báta í höfn.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í strandveiðarnar sem eru að fara að hefjast, og vonandi ganga þær sem best í sumar, hvort hann hyggist leita allra leiða til að tryggja þær í 48 daga. Mér skilst að hæstv. ráðherra hafi verið að skoða það fyrir nokkru að það væri mögulegt að tryggja 48 daga í strandveiðum. Ég er mjög ánægð með það ef hæstv. ráðherra er að vinna að því, það hefur verið óskað eftir því lengi og gott að vita hvort ráðherra sér möguleika á því í sumar.