151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

veiði þorsks á grunnslóð og strandveiðar.

[13:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina þó að seint sé fram komin. Það eru engu að síður mjög mikilvægar spurningar. Fyrst varðandi hrygningarstofnveiði og veiði þorsks á grunnslóð þá er hrygningarstoppið aðgerð sem hefur verið stunduð í ótal ár eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Ég held að reglugerðinni sem gildir um þetta hafi í rauninni ekkert verið breytt í 15 ár. Og þetta var komið inn áður. Ég held því að við getum verið alveg sammála um að það sé ágæt sátt og raunar mjög góð sátt um það fyrirkomulag að reyna að vernda hrygningarstofninn með þeim hætti að stöðva veiðar úr honum yfir þennan viðkvæmasta tíma. Jafnvel er maður farinn að heyra ávæning af því að lengja þyrfti aðeins í þessu.

Hins vegar hefur verið umræða, það er breytilegt eftir svæðum hvernig hún er, um ágang stærri skipa inn fyrir 12 mílurnar. Við þekkjum af umræðunni sem hefur átt sér stað, þó ekki væri nema síðastliðin tvö ár, breytingarnar fyrir austan, við Borgarfjörð eystri og þar. Við erum líka með Suðurlandið og Reykjanesið. Sem betur fer höfum við núna betri upplýsingar um hvernig sókn íslenskra fiskiskipa innan landhelginnar er háttað. Við höfum m.a. getað dregið fram frá Fiskistofu upplýsingar um með hvaða hætti þetta er. Ég er ekki viss um það og ég þekki það ekki, ég hef ekki tölur um að þorskveiði á grunnslóðinni hafi stóraukist á síðustu árum, ég þekki það ekki. Ég veit þó að áður fyrr var mikil veiði. Það er sjálfsagt að skoða það.

Svo að ég svari því hvort maður ætli að bregðast við dragnótinni sérstaklega hef ég ekki verið á þeim stað að taka hana út fyrir sem sérstakt veiðarfæri. Varðandi strandveiðarnar ætla ég að koma að því í seinna svari mínu og varðandi ýsuna svara ég hv. þingmanni í síðara andsvari.