151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

veiði þorsks á grunnslóð og strandveiðar.

[13:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði viljað fá skýrari viðbrögð við því hvort það væri eitthvað verið að skoða þennan mikla meðafla á ýsu í veiðum á þorski því að hann er bara til mikilla vandræða hjá útgerðum. Ég tel að það hljóti að vera hægt að bregðast við þeim vanda með einhverjum hætti í samvinnu við Hafró og líka varðandi dragnótina inn á grunnslóð sem menn hafa kvartað yfir mjög lengi og hefur núna verið brugðist við fyrir utan Borgarfjörð eystri.

Mig langar líka að spyrja um línuívilnun, hún hefur verið skorin niður frá ári til árs, hvort hæstv. ráðherra hyggist leiðrétta þær heimildir sem fara til línuívilnunar og tryggja þær til loka þessa fiskveiðiárs og aðeins meira um hvort hann hyggist tryggja strandveiðar í sumar.