151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

kosning umboðsmanns Alþingis skv. 1. gr. laga nr. 85 1997, um umboðsmann Alþingis, með síðari breytingum, til fjögurra ára, frá 1. maí 2021 til 30. apríl 2025.

[13:45]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Eins og hv. alþingismönnum er kunnugt hefur Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis, verið veitt lausn frá embætti frá og með 1. maí nk. Það er verkefni Alþingis að kjósa umboðsmann og það er jafnframt forsætisnefndar Alþingis að gera tillögu til þingsins um einstakling til að gegna embættinu. Forsætisnefnd skipaði þriggja manna undirnefnd úr sínum hópi til að hafa á hendi tillögugerð til forsætisnefndar um einstakling við kosningu til embættis umboðsmanns Alþingis. Undirnefndina skipuðu sá sem hér talar, Guðjón S. Brjánsson og Bryndís Haraldsdóttir. Undirnefnd forsætisnefndar naut ráðgjafar nefndar þriggja sérfræðinga, en hana skipuðu Helgi I. Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem var formaður ráðgjafarnefndarinnar, Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte. Báðar nefndirnar starfa samkvæmt reglum sem forsætisnefnd hefur sett um undirbúning fyrir kosningu einstaklings til að gegna embætti ríkisendurskoðanda eða umboðsmann Alþingis. Þær reglur er að finna á vef Alþingis.

Um kosninguna gildir ákvæði 7. mgr. 82. gr. þingskapa sem segir að þegar kjósa á um einn mann séu þeir einir í kjöri sem tilnefndir eru og eigi hreyfa andmælum. Á fundi forsætisnefndar í morgun var einróma samþykkt að tilnefna Skúla Magnússon, dómstjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur, sem umboðsmann Alþingis til næstu fjögurra ára. Aðrar tilnefningar hafa ekki borist forseta innan þess frests sem lög ákveða og er Skúli því einn í kjöri.

Forseti hefur ákveðið að kosningin verði með atkvæðagreiðslukerfinu eins og þingsköp heimila. Henni má jafna við leynilega skriflega kosningu. Atkvæðagreiðslukerfið verður nú þannig stillt að töflurnar á veggnum munu einungis sýna hverjir greiða atkvæði en ekki hvernig þeir greiddu atkvæði, og hið sama gildir um geymsluminni tölvunnar. Þeir sem kjósa Skúla Magnússon ýti á já-hnappinn en þeir sem vilja skila auðu ýti á hnappinn sem merktur er: Greiði ekki atkvæði. Nei-hnappurinn er óvirkur. Gult ljós kviknar við miðhnappinn á borðum þingmanna þegar atkvæði hefur verið greitt, sama á hvorn hnappinn menn hafa ýtt. Eins kviknar aðeins gult ljós á veggtöflum.

[Gengið var til kosningar.]