151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

yfirtaka á SpKef sparisjóði.

739. mál
[13:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í sambandi við skýrslubeiðnir hefur stundum komið upp sú umræða að betra kynni að vera að áður en skýrslubeiðni er lögð fram til atkvæðagreiðslu í þingsal eigi sér stað einhver umfjöllun um hana, t.d. á vettvangi nefndar. Þeirri hugmynd hefur verið hreyft, m.a. á vettvangi þingskapanefndar. Með því er ekki verið að tala um að koma í veg fyrir að skýrslubeiðni sé lögð fram heldur að aðeins sé skerpt á því hvaða tilgangi skýrslubeiðnin eigi að þjóna og að þingmenn hafi þá allir betri aðstöðu til að meta hvort tilefni sé til skýrslugjafarinnar í því formi sem hún er lögð fram. En eins og þingmenn þekkja eru skýrslubeiðnir lagðar fram án fyrirvara, án umræðu og án þess að eitthvert samtal eigi sér stað um hvernig standa eigi að þessu. Mér finnst þetta mál svolítið bera þess merki (Forseti hringir.) að gott hefði verið að eiga smá umræðu um það, t.d. til að skerpa á því hvaða nýju upplýsingar reikna má með að geti komið fram með slíkri skýrslu. Eins og hv. þm. Óli Björn Kárason (Forseti hringir.) benti á hefur mikil rannsókn átt sér stað áður á nákvæmlega þessum málum.