151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[14:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er hægt að segja að það sé ánægjulegt að á síðustu misserum hefur heilbrigði kvenna á Íslandi fengið mikla umfjöllun. Það hefði reyndar verið betra ef ástæðan væri ekki ákveðin hræðsla í hópi kvenna vegna breytinga sem áttu sér stað á því hvernig við skimum fyrir krabbameini. Mér finnst þó mikilvægt í þessu sambandi að við áttum okkur á því að hingað til hefur þátttaka íslenskra kvenna í brjóstaskimun verið óásættanleg, eða í kringum 60%. Við ættum auðvitað að setja markið á 75–80%. Ég vænti þess að hæstv. heilbrigðisráðherra fylgi því vel eftir að fylgst verði með því hvernig þessari þróun vindur fram í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa á fyrirkomulagi skimana fyrir brjóstakrabbameini.

Mig langar að nota tækifærið hér og bæta aðeins í spurningaflóruna til hæstv. ráðherra. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma 3. mars sl. ræddi ég þessi mál við hæstv. heilbrigðisráðherra. Þá ræddum við frestun sem átt hafði sér stað í því að breyta aldursbilinu, neðri mörkum, varðandi brjóstaskimunina. Eins og öllum er kunnugt hefur ráðherra frestað þeirri ákvörðun. Hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvenær við ætlum að hefja brjóstaskimun? Þá langar mig að kasta inn í þá umræðu hvort ekki sé skynsamlegt að bjóða konum frá 40 ára aldri í brjóstaskimun þó að áherslan á að ná meiri þátttöku miðist við 50 ára aldurinn.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Það er mál sem hefur staðið yfir lengi og við eigum hér ansi gamla þingsályktunartillögu um þetta mál. Hæstv. ráðherra hefur svarað því til að það sé í undirbúningi. Ef ráðherra hefði tækifæri á að koma inn á það í ræðu sinni þá held ég að það væri mjög forvitnilegt (Forseti hringir.) að vita hvað við sjáum fyrir okkur í þeim efnum. Hvenær getum við hafið þá skimun og hvert yrði fyrirkomulagið?