151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[14:13]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Það er algeng saga sem ég heyri í kringum mig frá öðrum konum þar sem einhver var búinn að vera veikur í langan tíma og ekkert fannst að en svo var viðkomandi með krabbamein og dó stuttu síðar. Það væri svo sem hægt að flokka þetta sem orðróm eða gróusögur en ég hef bara heyrt þetta úr svo mörgum áttum og svo oft að ég er sjálf farin að trúa þessu. Ég held að konur almennt treysti ekki heilbrigðiskerfinu til að passa upp á heilsu sína og líf með fullnægjandi hætti. En ég ætla að láta nægja hvað það varðar að fá að lesa hér upp úr tilkynningu sem aðgerðahópurinn Aðför að heilsu kvenna sendi frá sér nú í morgun. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Óhætt er að fullyrða að núverandi staða er með öllu óviðundandi og tryggir hvorki öryggi né gæði sem áskilin eru í starfsemi af þessu tagi. Biðin eftir niðurstöðum úr sýnatöku er allt of löng og komið hefur í ljós að ef kona þarf í frekari rannsóknir eða aðgerð eftir að niðurstöður berast er biðin einnig allt of löng. Ljóst er að hvorki heilbrigðisráðuneytið né heilsugæslan hafa metið áhættuna af þeim breytingum sem hafa verið gerðar og staða verkefnisins er því miður enn í algjörum molum.“

Í lok þessarar tilkynningar lýsir félagið yfir áhyggjum af því í hvaða farvegi málið er og er óskað eftir að ferlinu verði snúið við hið fyrsta. Það má því segja að traust til leghálsskimana sé nú í algeru lágmarki og langt í land þar til það vinnst aftur. Traust kvenna almennt til heilbrigðiskerfisins er ekkert sérstaklega mikið en ég mun fjalla meira um það í næstu ræðu.

Telur ráðherra að þær aðgerðir sem mun verða gripið til í sambandi við leghálsskimanir og hefur verið gripið til muni tryggja að konur og leghafandi fólk geti treyst þessum skimunum?