151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[14:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þessa umræðu. Við yfirfærslu leghálsskimunar frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar virtist það koma flatt upp á stjórnendur heilsugæslunnar hve mörg ógreind sýni fylgdu. Í frétt á ruv.is þar sem rætt er við Óskar Reykdalsson, forstjóra heilsugæslunnar, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„„Ég held þetta sé ekki nein yfirsjón, þetta tók bara aðeins lengri tíma en við hefðum viljað, við hefðum auðvitað viljað gera þetta tveim, þrem vikum fyrr.“

Hann bjóst við einhverjum sýnum frá Krabbameinsfélaginu en ekki 2.000 stykkjum. En hefði ekki biðin styst aðeins ef samningarnir við dönsku rannsóknarstofuna hefðu verið tilbúnir strax í janúar? „Jú, væntanlega,“ segir Óskar.“

Hefði það ekki átt að vera eitt helsta verkefni yfirvalda við yfirfærsluna að ganga úr skugga um hve mörg sýni kæmu frá Krabbameinsfélaginu sem þyrfti að greina og tryggja að sýnin yrðu rannsökuð tafarlaust í stað þess að setja þau í geymslu í fleiri vikur? Krabbameinsfélagið fullyrðir að það hafi legið fyrir í byrjun nóvember að félagið myndi hætta að greina sýni tekin eftir 6. nóvember og senda þau til greiningar hjá heilsugæslunni. Það er á ábyrgð stjórnvalda að ganga úr skugga um að svona mál komi ekki upp. Það hefði aldrei átt að vera til staðar nokkur vafi um það hversu mörg sýni kæmu frá Krabbameinsfélaginu og hvenær greiningin á þeim þyrfti að fara fram. Því er sú ákvörðun að semja við danskt sjúkrahús um greiningu sýna langt frá því að vera hafin yfir gagnrýni. Íslenskir læknar segja að hér sé til staðar kunnátta og tækjabúnaður til að framkvæma HPV-skimanir. Það er því afar furðulegt að stjórnvöld vilji frekar senda sýnin í ferðalag til Danmerkur. Það kemur bara til með að lengja ferlið, auka áhættuna. Stjórnvöld verða að svara því hvað réttlæti það að senda sýni til útlanda í skimun.