151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[14:20]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að hefja máls á þessu. Í byrjun síðasta árs varð ljóst að breytingar væru fram undan. Vakti ég tvívegis athygli á þessu mikilvæga máli í fyrirspurnum til hæstv. ráðherra. Nú er að nálgast hálft ár frá því að breytingarnar urðu að veruleika. Það er margt sem hefur farið í þann farveg sem áætlað var, en það virðist vera sem mikilvæg atriði hafi ekki náð að fylgja markmiðum breytinganna. Það er ljóst að á meðan markmiðum breytinganna er ekki náð færumst við fjær því takmarki sem lagt var upp með í upphafi, en það er að auka þátttöku kvenna í skimun, sem hafði minnkað, ásamt því að tryggja öryggi þegar konur greinast með krabbamein.

Hér virðist sem breytingastjórnun hafi verið af skornum skammti. Það er mikilvægt við allar breytingar að ef þær eiga að vera til batnaðar skal upplýsingagjöf vera öflug. Það hefur mistekist hér. Nýjustu upplýsingar í fjölmiðlum sýna að konur bíða óeðlilega lengi eftir að niðurstöður úr greiningu á leghálssýnum, þekkingin lekur úr landi og við færumst lengra frá því markmiði sem við ætluðum okkur með krabbameinskimun á konum hér á landi. Það tryggir hvorki öryggi né gæði sem áskilin eru í starfsemi sem þessari. Það skiptir gríðarlega miklu máli að samfella verði í skipulagðri leit að legháls- og brjóstakrabbameini hjá konum. Konur verða að geta treyst á að skimun verði áfram öruggum hætti. Því miður hefur það verið raunin að konur hafa ekki verið eins duglegar að sækja þessa þjónustu síðustu ár. Með góðum undirbúningi og tryggri þjónustu og góðum og aðgengilegum upplýsingum er hægt að auka það á ný.