151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[14:30]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við um mikilvæga heilbrigðisþjónustu sem er í raun og veru forvarnamál og er gríðarlega mikilvægt fyrir lýðheilsu okkar. Ég held að þetta mál og saga þess eigi margt sammerkt með öðru í okkar annars flotta og góða heilbrigðiskerfi. Heilbrigðiskerfið okkar hefur sýnt það undanfarið í Covid; heilsugæslan, Landspítalinn, hjúkrunarfræðingar og stofnanir úti um allt land hafa sýnt alveg gríðarlega seiglu og dugnað með frábærum úrræðum í því hvernig þau hafa leyst málið. Það er verið að skima alla daga og bólusetja alla daga samhliða því að sinna annarri þjónustu. Þetta er ekkert mál. Þetta snýst alltaf um eitthvert skipulag og fyrirkomulag. Hvernig ætlum við að gera hlutina og hafa þá sem aðgengilegasta, hafa þjónustuna sem aðgengilegasta, sem skilvirkasta, þannig að þjónustan og hagkvæmnin sé sem best? Meðan aðgengi er gott og þjónustan góð þá koma fleiri í skimanir og þá náum við akkúrat þeim árangri sem við stefnum að með þessu. Og því hagkvæmara sem þetta er, þeim mun meira getum við gert í skimunum og bætt við fleiri tegundum skimana fyrir krabbameini og öðru slíku.

Þetta er kannski stóra vandamálið sem við búum við víða í heilbrigðiskerfinu, hvort sem það er hjá Sjúkratryggingum Íslands eða einhvers staðar annars staðar í kerfinu, að það vantar svolítið að við segjum: Hvað ætlum við að kaupa? Hvaða þjónustu erum við að sækjast eftir og hver býðst til að veita hana á sem hagkvæmastan, aðgengilegastan og bestan hátt? Það er á þann stað sem við þurfum að komast. Okkur tókst þetta varðandi heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Þar var bara ákveðið hvaða þjónustu við ætluðum að kaupa og allir fengu greitt fyrir það sama. Menn vita að hverju er stefnt og svo keppast rekstrarformin um að gera það á sem bestan hátt. Við þurfum að koma þessum skimunum í lag. Við þurfum að láta greiningarnar fara fram hér á landi og gera þetta þannig að það sé aðgengilegt og við náum markmiðum okkar.