151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[14:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og öllum þeim sem þátt tóku í umræðunni. Ég vil ítreka að ég er sammála forsendum breytinga á fyrirkomulagi skimana fyrir legháls- og brjóstakrabbameini en þess vegna er mér líka þeim mun meira í mun að framkvæmdin gangi vel og haldið verði áfram og bætt úr því sem ekki er í lagi. Það liggur alveg fyrir að breytingastjórnunin hefði getað tekist betur. Það varð rof í þjónustunni. Greiningartíminn hefur verið of langur þótt það sé að færast til betri vegar hjá þeim sem hafa farið í sýnatöku síðustu vikur og þar er margt komið í gott lag. En það þarf betri yfirsýn yfir jafn flókið breytingaferli sem raunin er í þessu verkefni. Það er, að mér sýnist, ekki nóg að fela aðilum hluta af verkefnum með bréfum. Það þarf samhæfingu, einn samhæfingaraðila, og því er hægt að bæta úr til framtíðar.

Ég hef áfram áhyggjur af áhættu af mistökunum við millifærslu upplýsinga um sýnin frá íslenskum rannsóknagagnagrunnum yfir í danskan og svo aftur til baka þegar niðurstöður liggja fyrir því að í öllum rannsóknum eru veiku hlekkirnir þar sem slík millifærsla fer fram. Þess vegna spyr ég hvort haldið sé áfram að skoða möguleikann á að sinna rannsóknunum hér og hvort hægt væri þá að koma niðurstöðum hraðar inn í Heilsuveru t.d., eins og ég held að sé markmiðið. Þá vil ég ítreka við hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að finna leið til að taka utan um þann hóp kvenna sem lenti á milli við breytinguna og sérstaklega þær konur sem voru í einhvers konar sértæku eftirliti. En íslenska heilbrigðiskerfið hefur sýnt að það getur sinnt þessu verkefni vel.