151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[16:48]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að ganga til viðræðna við grænlensk stjórnvöld um tvíhliða rammasamning um aukin samskipti landanna, byggt á tillögum Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Ég hef í starfi mínu sem utanríkisráðherra lagt mikla áherslu á norðurslóðir og að efla samskipti við önnur norðurslóðaríki. Á norðurslóðamálefni, aukin samskipti milli ríkja og viðskiptatækifæri á þessu gríðarlega viðkvæma svæði hefur verið sérstök áhersla síðustu misseri og ég hef þegar sett af stað vinnu til að greina þessi mál og hagsmuni Íslands enn betur.

Virðulegi forseti. Grænland spilar lykilhlutverk á norðurslóðum og er auk þess landfræðilega næsti nágranni Íslands. Tvíhliða samskipti landanna hafa eflst mikið á undanförnum árum, ekki síst með opnun sendiskrifstofu Íslands í Nuuk árið 2013 og opnun grænlenskrar sendiskrifstofu í Reykjavík árið 2018. Samskipti landanna á sviði menningar, lista og íþrótta hafa verið nokkuð mikil í gegnum tíðina og félagasamtök eins og Hrókurinn og Rauði krossinn hafa unnið stórvirki. Ég tel mikilvægt að efla samstarfið enn frekar.

Löndin eiga nú þegar mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta, m.a. á sviði sjávarútvegs, flugþjónustu, stjórnar flugumferðar, ferðaþjónustu, loftslagsmála og málefna norðurslóða. Eins og áður hefur verið kynnt þá skipaði ég í apríl 2019 nefnd um gerð tillagna um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum. Nefndin skilaði mér í janúar á þessu ári ítarlegri skýrslu með tillögum sínum um aukið samstarf landanna. Að baki tillögum nefndarinnar er umfangsmikil og ítarleg greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna, í raun umfangsmesta greining sem nokkurn tíma hefur verið gerð á samskiptum landanna. Nefndin forgangsraðaði tíu tillögum til stefnumörkunar af samtals 99 tillögum hennar. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að Grænland og Ísland gerðu með sér rammasamning um samstarf í framtíðinni.

(Forseti (BN): Er hæstv. ráðherra viss um að hann sé með ræðu í réttu dagskrármáli? Um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða?)

Nei, þetta er bara alls ekki það. Það er langur vegur frá.

(Forseti (BN): Forseti fer fram á það að hæstv. ráðherra ræði dagskrármálið sem er á dagskrá, sem er stefna Íslands í málefnum norðurslóða.)

Ef virðulegur forseti biður svo vel þá að sjálfsögðu verður ráðherrann við því.

(Forseti (BN): Forseti er mjög þakklátur.)

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Norðurslóðir hafa um árabil verið meðal helstu áherslusviða utanríkisstefnunnar enda snerta málefni sem þeim tengjast hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti. Norðurslóðastefnan sem nú er í gildi byggist á þingsályktun nr. 20/139 sem Alþingi samþykkti samhljóða í mars 2011. Á þessum tíu árum hefur orðið töluverð þróun í málefnum svæðisins, m.a. vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Ummerki hlýnunar eru hvergi jafn greinileg og á norðurslóðum en þar hækkar hitastig meira en tvöfalt hraðar en meðaltalið á heimsvísu, m.a. með þeim afleiðingum að jöklar bráðna og hafís hopar. Alþjóðlegur áhugi á svæðinu hefur aukist töluvert, einkum vegna væntinga um opnun siglingaleiða og möguleika á auðlindanýtingu. Samhliða þessu hefur vaxandi spennu gætt á svæðinu, einkum vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa en einnig vegna vaxandi ásælni Kínverja.

Undanfarin tvö ár hefur Ísland gegnt veigamiklu hlutverki með formennsku í Norðurskautsráðinu sem er mikilvægasti samstarfsvettvangurinn um málefni svæðisins. Í næsta mánuði fer fram hér á landi ráðherrafundur ráðsins og hafa utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands þegar staðfest þátttöku sína. Við munum á þeim fundi skila af okkur keflinu til Rússa sem taka við formennsku ráðsins til næstu tveggja ára.

Á þessum tímamótum þegar áratugur liðinn frá því að Alþingi mótaði fyrst afstöðu sína til norðurslóða og nú þegar sér fyrir endann á okkar formennsku í ráðinu taldi ég tímabært að ráðast í endurskoðun norðurslóðastefnu Íslands. Ég skipaði því þingmannanefnd með fulltrúum allra þingflokka og fól henni að fjalla um málefni norðurslóða út frá víðu sjónarhorni, m.a. vistfræðilegu, efnahagslegu og pólitísku en ekki síst með hliðsjón af þeim miklu öryggishagsmunum sem í húfi eru á svæðinu. Nefndin hélt alls 17 fundi og ráðfærði sig við fjölda sérfræðinga og hagaðila. Nefndarmönnum gafst einnig kostur á að taka þátt í heimsókninni til Akureyrar í maí á síðasta ári þar sem umræðufundir voru haldnir með þátttöku fjölmargra aðila sem koma að norðurslóðastarfi á Norðurlandi.

Þingmannanefndin skilaði mér tillögum sínum í mars síðastliðinn og eru þær í fylgiskjali með tillögu þessari auk þess sem þær hafa verið birtar á vef Stjórnarráðsins. Þær miða að því að tryggja hagsmuni Íslands í víðum skilningi með sjálfbæra þróun og friðsamlegt samstarf að leiðarljósi. Þingsályktunartillagan ásamt greinargerð byggist á tillögum nefndarinnar og þeim forsendum sem hún taldi að leggja ætti til grundvallar nýrri norðurslóðastefnu.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim hv. þingmönnum sem komu að þessu verkefni kærlega fyrir vel unnin störf.

Samkvæmt tillögu þessari skal ný norðurslóðastefna byggjast á 19 áhersluþáttum en þeir lúta m.a. að alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins, umhverfisvernd og viðbrögðum við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, velferð íbúa á norðurslóðum, hagnýtingu efnahagstækifæra, þróunar í öryggismálum, leit og björgun, uppbyggingu þekkingar og eflingu innlendrar miðstöðvar norðurslóðamála.

Íslandi hefur tekist að leysa formennsku í Norðurskautsráðinu vel af hendi undanfarin tvö ár þrátt fyrir óvæntar áskoranir af völdum Covid-19 faraldursins. Að mínu mati færi mjög vel á því að Alþingi sameinaðist um nýja norðurslóðastefnu um það leyti sem formennskutímanum lýkur nú í vor með ráðherrafundi sem haldinn verður í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Ég legg til að tillögunni verði vísað til hv. utanríkismálanefndar að lokinni þessari umræðu.