151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna þessari þingsályktunartillögu. Hún er þverpólitísk og það er ekki á hverjum degi sem við höfum slíkt hér. Hún er vönduð og framsækin að mínu mati. Ég ætla aðeins að fjalla um nokkra liði af þessum 19 sem eru uppistaðan í þingsályktunartillögunni.

Ég bendi hér á lið nr. 1, þar sem segir:

1. Að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um málefni norðurslóða á grundvelli þeirra gilda sem höfð hafa verið að leiðarljósi í íslenskri utanríkisstefnu, m.a. um frið, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti.

Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að í alþjóðamálum eru ýmsar væringar og lítið ríki á borð við Ísland á að leggja áherslu á nákvæmlega þetta og halda fast við þessi gildi.

2. Að styðja áfram við Norðurskautsráðið og efla það sem mikilvægasta vettvanginn til samráðs og samstarfs um málefni svæðisins.

Þar er um að gera að horfa til starfshátta sem þar hafa tíðkast, sem eru m.a. þeir að fjalla ekki um þau deilumál sem valdið geta mjög mikilli spennu og núningi, þ.e. varnar- og öryggismál. Þetta er því að mörgu leyti fordæmisgefandi þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi, og eins sýna þeir samningar og þær framfarir sem orðið hafa á vegum Norðurskautsráðsins glöggt fram á að þetta er Vettvangurinn með stóru V-i, svo ég segi það nú þannig.

Nú taka Rússar við formennskunni af Íslandi og ég hef átt þess kost að kynna mér áherslur þeirra næstu tvö árin. Ég verð að segja að það eru mjög jákvæðar áherslur og að nokkru leyti óvanalegar að því marki að það kveður við dálítið annan tón en gerði fyrir fáeinum árum síðan. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Enn fremur segir hér, með leyfi forseta:

4. Að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi og taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Þar er mjög brýnt að horfa á hvað sjálfbærni þýðir, þrír þættir sjálfbærni, það eru þá náttúran og samfélagið og peningamálin, vegna þess að þegar rætt er um auðlindanýtingu á norðurslóðum kemur mjög oft fram að menn tali um sjálfbæran námarekstur. Það er einfaldlega rangt. Það er ekki hægt að tala um sjálfbæran námarekstur. Hann getur verið eins umhverfisvænn og hægt er með því að menn noti þannig verkfæri og búi þannig um, en að hann geti verið sjálfbær er röng notkun á orðalaginu vegna þess að það eyðist sem af er tekið og byggingarefnistaka á Íslandi, þegar tekin eru hálfu og heilu fjöllin, er ekki sjálfbær atvinnurekstur heldur atvinnurekstur sem er nauðsynlegur og er hægt að vinna með sjálfbærum hætti. En jarðefni á norðurslóðum, málma, gasolíu og annað slíkt er ekki hægt að vinna á sjálfbæran hátt. Það er mjög mikilvægt að muna eftir því.

5. og 7. punktur leggja sig hreinlega saman, þ.e. að leggja áherslu á að sporna gegn loftslagsbreytingum og bregðast við neikvæðum áhrifum þeirra á norðurslóðum, og svo hins vegar að standa vörð um heilbrigði hafsins, þar á meðal að vinna gegn ógnum sem felast í súrnun sjávar og hvers konar mengun í hafi.

Þarna er verið að setja fingurinn á mjög mikilvægan punkt, einfaldlega vegna þess að komið hefur í ljós að á Covid-árinu dróst losun gróðurhúsagasa ekki saman. Menn bættu fyrir efnahagsvandann með því að auka framleiðslu og auka losun þannig að því miður fór það þannig. Þetta er svo mikilvægt vegna þess að þetta er ekki bara spurning um súrnun heldur líka hugsanlega breytingu á hafstraumum, þannig að það verður að leggja, eins og Ísland gerði í formennskutíð sinni sem lýkur í maí, mikla áherslu á samábyrgð þjóðanna, samábyrgð fyrirtækja og samábyrgð sveitarfélaga og samvinnu við að kveða þennan draug í kútinn eins og hægt er og á sem skemmstum tíma.

Ég vil svo minna á eftirfarandi liði:

9. Að beina sjónum að velferð íbúanna á norðurslóðum, m.a. möguleikum þeirra til lífsafkomu og aðgengi þeirra að stafrænum fjarskiptum, menntun og heilbrigðisþjónustu, að styðja réttindi frumbyggja og jafnrétti í hvívetna sem og viðleitni til að vernda menningararf og tungumál þjóðanna sem byggja norðurslóðir.

Þetta er mjög mikilvægt. En ég vil taka fram að það á að leggja megináherslu á þau atriði sem snúa að annars vegar ungu fólki og hins vegar frumbyggjunum, vegna þess að frumbyggjarnir búa yfir mjög mikilvægri þekkingu um hvernig á að vinna og lifa á norðurslóðum og unga fólkið eru þau sem taka við af okkur. Það varðar miklu að ungt fólk sjái framtíð í því að vinna og starfa á norðurslóðum.

14. Að gæta öryggishagsmuna á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar, vakta vel þróun í öryggismálum í samráði við hinar Norðurlandaþjóðirnar og önnur bandalagsríki okkar í NATO, mæla gegn hervæðingu og vinna markvisst að því að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu.

Þessi punktur er augljóslega málamiðlun milli þeirra átta flokka sem þarna störfuðu saman að því að endurskoða stefnuna frá 2011. Þetta er ásættanlegur punktur í sjálfu sér. En það er mjög mikilvægt að horfa á sviðið, þ.e. stórveldin, Rússland og Bandaríkin annars vegar, NATO með Kanada og sumar Norðurlandaþjóðirnar innan borðs, og svo hinar tvær Norðurlandaþjóðirnar sem ekki eru meðlimir í NATO, þ.e. Svía og Finna, sem vinna orðið þétt með NATO, hvernig aðgerðir og andsvör hafa smám saman verið að gera það að verkum á báða bóga — það er ekki hægt að kenna Rússum um hvernig fer og það er heldur ekki hægt að kenna NATO um hvernig fer, heldur hvernig samspilið á milli þessara tveggja aðila er á norðurslóðum; æfingar, aukin viðvera, nýjar herstöðvar, ný miðstöð í Norfolk í Bandaríkjunum sem á að sjá um Norður-Atlantshafið, þreifingar varðandi meiri viðveru í Noregi af hálfu NATO eða aðstöðu á Grænlandi, Rússar að byggja sínar átta, níu stöðvar meðfram Síberíusiglingaleiðinni og sumar mjög stórar og öflugar o.s.frv.

Þetta er raunveruleikinn. Okkar hlutverk í þessu er að reyna að koma í veg fyrir það sem ég kalla ping-pong, borðtennisástandð í varnar- og öryggismálum þar sem spennan vex hægt og rólega. Inn í þetta kemur Kína á vissan hátt með ýmiss konar, við skulum segja skrefum til að auka sín áhrif, leggja fram sína norðurslóðastefnu, sækjast eftir járnbrautarlagningu, flugvöllum, flugvallargerð eða -leigu eða hvað það nú kann að vera, komast inn með kínversk fyrirtæki, auðlindanýtingu og annað.

Ég tek það fram að Kínverjar eru ekki einir í þessu. Ástralir eru í þessu líka og fleiri. Þannig að það er okkar hlutverk að reyna að hefja umræður um þessi varnar- og öryggismál utan Norðurskautsráðsins og utan þingmannaráðstefnu norðurslóða, þ.e. reyna að þoka þeim í átt til þess sem ég myndi kalla á ensku, með leyfi herra forseta, Polar Code 3, vegna þess að Polar Code 1 er til og varðar hegðunarreglur í siglingum á norðurslóðum. Um þetta varð samkomulag. Það hefur verið ámálgað á ráðstefnum, og nú síðast á þingmannaráðstefnu norðurslóða, að það þyrfti að finna fram það sem gæti heitið Polar Code 2, eða hegðunarreglur í auðlindanýtingu á norðurslóðum. Þá hefðum við einn kóða sem segði fyrir um hegðunarreglur á hafi, eða í sjó við samgöngur, skemmtiferðaskip og annað slíkt, annan kóða sem hefði með auðlindanýtingu að gera á landi og sá þriðji væri hegðunarreglur eða kóði um það hvernig menn skuli haga sér á þessum slóðum þegar kemur að hernaðarumsvifum eða uppbyggingu á hverju sem vera kann. Þannig að þetta er mjög mikilvægt.

Að lokum langar mig að nefna að það stendur í 18. og 19. lið að það þarf að skapa hér Hringborði norðurslóða umgjörð. En það á líka að efla Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Þarna þarf mjög vandaða þarfagreiningu og leysa þessi tvö verkefni saman.