151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og þessa framkomnu þingsályktunartillögu sem ég tel býsna mikilvæga. Ég held að það hafi verið hárrétt skref hjá hæstv. ráðherra að ráðast í endurskoðun á stefnu okkar í norðurslóðamálum. Ýmislegt hefur breyst á þessu svæði. Þetta er það svæði á hnettinum sem breytist hvað mest og við sjáum breytingarnar ár frá ári þegar ísinn bráðnar. Þar af leiðandi er víða mjög mikill áhugi á málaflokknum og því mikilvægt að við endurskoðum stefnu okkar, og ekki síður til að halda á lofti umræðunni um þann mikilvæga málaflokk sem norðurslóðir eru.

Sem þingmaður í alþjóðasamstarfi verð ég vör við hve áhugi á norðurslóðum er víða, í fjarlægum löndum. Mér finnst stundum eins og áhuginn á norðurslóðamálum hafi jafnvel verið meiri hjá þingmönnum frá Japan, Kóreu eða Kína en kannski hjá helstu nágrönnum okkar. Ástæðan er auðvitað sú gríðarlega breyting sem er fram undan vegna hlýnunar jarðar. Þess vegna er svo mikilvægt að öll okkar orðræða og allar okkar aðgerðir varðandi þessa stefnu byggi á því að um er að ræða loftslagsmál og umhverfismál. Það sem við tölum um á norðurslóðum þarf að vera sjálfbært. Þar höfum við góða sögu að segja. Við höfum svo margt fram að færa þegar kemur að slíkri atvinnuuppbyggingu. Við getum annars vegar talað um fiskveiðistjórnarkerfið okkar og reynslu okkar af því að byggja upp sjálfbæra fiskveiðistjórn en síðan orkuna okkar og fleira má telja til.

Virðulegur forseti. Ég fékk að njóta þess að leiða hópinn sem skilaði ráðherra skýrslu sem hann byggir tillögur sínar á. Ég gæti því haldið langa ræðu um þessa punkta en ætla að reyna að hafa hana í styttri kantinum. Við lögðum áherslu á það við vinnuna að það býr fólk á norðurslóðum og það erum við. Það erum við Íslendingar. Við búum á norðurslóðum, við erum norðurslóðabúar. Það er nefnilega þannig, þegar rætt er um norðurslóðir í alþjóðasamhengi, að þetta fer að verða heitur reitur, ekki bara vegna þess að hér er að hlýna heldur líka vegna þess að fólk fer að velta fyrir sér varnarstöðu. Sumir falla líka í þá gryfju að tala um þetta sem svæði sem þurfi einhvern veginn að vernda og þar af leiðandi megi ekki veiða þar eða byggja upp atvinnu. Ég hef oft sagt: Þetta eru ekki bara einhverjir ísbirnir, eins fallegir og þeir eru, á ísjökum, heldur býr hérna fólk. Það verður, held ég, alltaf að vera grunnurinn að stefnu okkar, hvernig við ætlum að búa áfram á þessu svæði og gera það ákjósanlegt að búa á norðurslóðum. Þess vegna þarf öll okkar innviða- og atvinnuuppbygging að lúta að sjálfbærninni. Öryggishagsmunirnir eru miklir og við komum inn á það í einum af þessum punktum að við erum aðilar að NATO og það skiptir okkur mjög miklu máli, það er okkar varnarstefna. En við veltum líka upp samstarfi okkar við Norðurlöndin, sem hingað til hefur verið gott á svo mörgum sviðum, og teljum að ástæða sé til þess að horfa á það á þessu sviði.

Ég veit ekki, virðulegur forseti, hvort allir átta sig á mikilvægi Norðurskautsráðsins og þess að við sitjum þar við borðið. Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á það áðan að hér er fyrirhugaður fundur þar sem við látum af formennsku og Rússar taka við og hversu mikilvægur þessi vettvangur er til samtals og samræðna milli þessara landa. Við erum þar eins og hvert annað ríki sem á sæti við borðið og það skiptir mjög miklu máli. Ég held líka að í öllu samhengi hlutanna skipti það máli, og maður heyrir það frá Bandaríkjunum, að í raun er Norðurskautsráðið eini vettvangurinn þar sem virk samskipti eru á milli Rússa og Bandaríkjamanna, þar sem þeir koma saman og eiga samtal. Þar af leiðandi skiptir þetta miklu máli.

Það eru ýmsir punktar hér en ég geri ráð fyrir að málið fari yfir til okkar í utanríkismálanefnd og við höldum áfram að fjalla um þetta. Það sem mér þykir sjálfri kannski áhugaverðast og mesta tækifærið, ef svo má að orði komast, er að virkja hugvit og þekkingu. Það er áhugavert að hafa fengið tækifæri til að kynnast öllu því frábæra fólki sem vinnur við norðurslóðamál á hverjum einasta degi. Þá er ég bæði að tala um vísindamenn en líka fólk sem kemur að því að miðla upplýsingum, rannsóknaniðurstöðum og öðru og halda utan um þetta. Við höfum náð góðri fótfestu í því að vera staðurinn sem fjallað er um þegar verið er að tala um norðurslóðamál. Þá er ég að vísa til Hringborðs norðurslóða sem fyrrverandi forseti okkar kom á og hefur tekist að skapa stóran og mikilvægan vettvang. Þarna held ég að við höfum tækifæri til að festa okkur enn frekar í sessi. Við þurfum að tryggja að viðburðurinn Hringborð norðurslóða, sem hægt er að þróa enn frekar, verði hér eftir sem hingað til á Íslandi. Það eru tækifæri því tengd að leiða hingað saman fólk á sviði vísinda, rannsókna, nýsköpunar og atvinnulífs, þriðja geirans, alls konar félagasamtaka sem fjalla um málið, og stjórnmálanna. Þetta er einstakur vettvangur og það er mikilvægt að tryggt verði að hann verði það áfram.

Eins og kom fram í ræðu áðan þá er Akureyri ákveðin miðstöð norðurslóða, hefur verið það. Háskólinn á Akureyri hefur staðið sig einstaklega vel með sitt nám og við erum með skrifstofur um verkefni undir Norðurskautsráðinu á Akureyri. Uppbyggingin á Akureyri hefur verið mikil og er mikilvægt að hún haldi áfram og Akureyri skipi þennan mikilvæga sess. Að því sögðu finnst mér líka mjög mikilvægt að málin séu ekki afgreidd með þeim hætti að allt sem tengist norðurslóðum eigi heima á Akureyri. Málaflokkurinn er bara svo miklu stærri en það og því er mikilvægt að aðrir háskólar, aðrar rannsóknastofnanir og aðilar þessu tengdir séu að fjalla um norðurskautsmál því að þau tengja okkur öll á svo margvíslegan hátt.

Virðulegur forseti. Ég hlakka til að fá það verkefni að fjalla um málið í hv. utanríkismálanefnd og langar að ítreka mikilvægi þess að við nýtum stöðu okkar sem norðurskautsríki og tækifærin sem gefast hvað nýsköpun og rannsóknir varðar tengd umhverfismálum, tengd grænum iðnaði, grænni nýsköpun, hvort sem við heyrum rætt um Carbix, sem ætlar að farga koltvíoxíði, eða hvað það er sem tengist þessum vettvangi. Við sjáum að aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar falla nákvæmlega á sama veg: Við erum að hvetja til nýsköpunar, við erum að auka endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar og við erum með sérstakan hvata í grænum fjárfestingum.

Virðulegur forseti. Þetta er það sem mun skapa okkar framtíð og þarna liggja svo sannarlega tækifærin. Ég vil hvetja okkur öll áfram á þessum vettvangi.