151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:25]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Ég er einn þeirra þingmanna sem voru í starfshópnum. Þetta er sama hugmyndafræði og við unnum í nýrri orkustefnu fyrir Ísland, fram fór mikil þverpólitísk vinna hjá hópnum og góð umræða varð um mótun þeirrar stefnu sem við ræðum nú og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra leggur fram sem þingsályktunartillögu. Það er víða komið við og hér er um gríðarlega mikilvæg málefni að ræða. Búið er að koma inn á ýmsa punkta þannig að ég ætla að tala meira um það sem minna hefur verið rætt, eins og gervihnattaleiðsöguna. Mér heyrist enginn hafa komið almennilega inn á það í umræðunni og við fáum fáar mínútur þannig að kannski er rétt að minnast á það.

Við ræðum 19 punkta í þessari stefnu. Einn af punktunum snýr að gervihnattaleiðsögu og mikilvægi hennar. Við höfum svo sem rætt hana hér í þingsalnum undanfarin ár með vaxandi áherslu á mál sem snúa að gervihnattaleiðsögu. Þá er oft nefnt til sögunnar EGNOS-kerfið, sem rekið er af Evrópsku geimvísindastofnuninni, og síðan er yfir Bandaríkjunum svokallað WAAS-kerfi. Það er spurning hvernig við sjáum þetta í framtíðinni, hvort það gæti orðið skörun yfir Atlantshafinu og þar með yfir Íslandi og kannski Grænlandi með þessi tvö kerfi sem gætu mögulega bæði náð yfir þetta heimssvæði, Norður-Atlantshaf og Grænland. Það er gríðarlega mikilvægt, bæði vegna leiðsögu í flugi og vegna skipaumferðar. Þannig að það er stórt og mikilvægt mál.

Þetta er málefni sem er mjög stórt fyrir Ísland, en þetta er risastórt mál fyrir Grænland. Grænland er tuttugu og einu sinni stærra en Ísland, 2,2 milljónir km². Grænlendingar treysta mjög mikið á flugið sem einu alvöru innanlandssamgöngurnar, hvort sem notaðar eru fastvængja flugvélar eða þyrlur. Með því að geta notað slíka gervihnattaleiðsögu skapast miklu meiri möguleikar á aðflugum og aðflugsferlum til að lenda vítt og breitt um Grænland og það skiptir að auki miklu máli varðandi almenningsflug og síðan leit og björgun. Þetta þýðir raunverulega að hægt er að fljúga með gervihnattaleiðsögu niður í dali og firði þar sem illa er hægt að koma fyrir búnaði, þ.e. hefðbundnum aðflugsbúnaði, á jörðu niðri nema með gríðarlegum kostnaði. Þarna eru því gríðarlegir möguleikar á Grænlandi og miklir möguleikar á Íslandi.

Við erum farin að sjá á austurhluta Íslands ummerki um þær breytingar sem eru að verða í flugsamgöngunum sem snúa að gervihnattaleiðsögunni, m.a. lægri lágmörk á flugvöllum á austurhluta landsins. Við erum farin að sjá þetta á Vopnafirði og á Húsavík og verið er að vinna í þessum málum á Höfn og á Egilsstöðum. Og við erum farin að sjá góðar viðbætur í þessum málum tengdar Akureyri. Þetta er því sameiginlegt hagsmunamál sem er líka farið að taka upp í Vestnorræna ráðinu og víðar þannig að á allra síðustu árum hefur áhuginn vaxið mjög á þessum málum. Það er rétt að geta þess að við ræðum þetta í einni af tillögum okkar, í 14. tillögunni frá starfshópnum sem kemur hér fram í þingsályktunartillögunni:

„Að gæta öryggishagsmuna á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar, vakta vel þróun í öryggismálum í samráði við hinar Norðurlandaþjóðirnar og önnur bandalagsríki okkar í NATO, mæla gegn hervæðingu og vinna markvisst að því að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu.“

Þarna erum við að tala um að við viljum viðhalda því sem oft hefur verið kallað lágspennusvæði á Norður-Atlantshafinu og á norðanverðu Norður-Atlantshafinu og á heimskautasvæðunum. Við höfum séð miklar breytingar á allra síðustu árum tengdar málefnum sem snúa að varnar- og öryggismálum í okkar heimshluta. Mikil þróun hefur orðið frá 2018 í málefnum sem tengjast Grænlandi og varðandi nýju flugvellina á vesturströnd Grænlands, í Ilulissat og Nuuk og síðan á suðvesturhorni landsins í Qaqortoq. Áhugi erlendra stórvelda á þeim málefnum hefur aukist og við höfum líka séð það almennt á siglingum herskipa og viðbúnaði og eftirliti herafla, t.d. NATO-ríkja og náttúrlega Rússlands, á undanförnum fáum misserum, kannski meira en oft áður. En almennt leggjum við áherslu á að viðhalda þessu lágspennusvæði og ber að stefna að því að það náist með sem bestum árangri.

Það er líka komið inn á leit og björgun. Það er einn af punktunum sem við erum að vinna með, 13. punkturinn: Að efla getu til leitar og björgunar, auk viðbragða við mengunarslysum, m.a. með því að byggja upp innlendan björgunarklasa og styrkja enn frekar alþjóðlegt samstarf.

Hvað Ísland varðar er ekki bara verið að sinna leit og björgun á þessum rúmu 100.000 km² á Íslandi heldur er lögsaga okkar tæpir 800.000 km², þannig að verið er að sinna því líka. En við stjórnum líka mun stærra svæði en efnahagslögsögunni. Ef ég man rétt þá er það svæði um 1,8 milljónir km², eða um átján sinnum stærra en Ísland, sem við förum raunverulega með stjórn á. Það er í samvinnu við erlend ríki og höfum við sérstaklega átt í góðu samstarfi við danska sjóherinn eða dönsku landhelgisgæsluna um málefni sem tengjast einmitt þyrlum og varðskipum þeirra.

Þetta er því stórt og mikið málefni og væri æskilegt að við næðum árangri í því á næstu misserum að efla þessa getu með vinaþjóðum okkar og skoða hvernig við getum hugsað þetta til lengri tíma. Þá lítur sá sem hér stendur líka til þess hvort einhverjir möguleikar séu á norðausturhorninu til eflingar á leit og björgun. Meiri traffík hefur verið að skapast hér norðan við landið og á hafsvæðinu norðan við það og hefur hún stóraukist á síðustu árum, hvort sem er vegna skemmtiferðaskipa eða almennra fraktflutninga, gasflutninga frá norðursvæðum Rússlands, vestur til Bandaríkjanna og til Vesturheims. Það er líka einn af þessum stóru punktum sem mikil áhersla er lögð á í þessu.

Nú fer ég fram og til baka yfir þá punkta sem við ræðum. Persónulega hef ég líka haft miklar áhyggjur af súrnun hafsins og þeim sviðsmyndum sem settar hafa verið upp um hvað getur gerst í súrnun hafsins á næstu 30–40 árum. Við komum aðeins inn á þetta í punktum starfshópsins. Auðvitað er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni að súrnun hafsins verði ekki of mikil þannig að það hafi áhrif á nytjastofna og náttúrlega almennt á lífríkið á hafsvæðunum í kringum Ísland.

Það er erfitt að fara í gegnum alla þá punkta sem hér eru á 10 mínútum. En ég vil sérstaklega koma inn á 19. punktinn, þ.e. að efla Akureyri enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi, m.a. með stuðningi við mennta- og rannsóknarstofnanir og þekkingarsetur og með því að efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða. Þess ber að geta, og þetta er þá um Norðurslóðamiðstöð Íslands á Akureyri, að þar hefur verið mikil starfsemi sem tengist norðurslóðamálum undanfarin 25 ár. Þá var stofnun Vilhjálms Stefánssonar stofnuð á Akureyri og síðan hafa bæst við stofnanir á vegum Norðurskautsráðsins, PAME og CAFF, og margt fleira.

Á þessum tíma, á undanförnum 20–25 árum, hefur byggst upp miðstöð þekkingar á samfélögum norðurslóða, til að mynda með félagsvísindalegum rannsóknum á sjálfbærni og sjálfstjórn, jafnrétti og samfélagslegri velferð, jöfnuði og aðlögunarhæfni á tímum loftslagsbreytinga. Það er á þeim vettvangi sem Ísland hefur hvað mest að bjóða í samstarfi þjóða á norðurslóðum. Starfshópurinn leggur því til að þetta starf sé eflt.

Ég gæti talið upp fjölmargt fleira sem unnið hefur verið að á undanförnum árum og áratugum á Akureyri tengt norðurslóðamálum. En þetta er einn af þessum stóru og mikilvægu punktum í tillögum nefndarinnar sem utanríkisráðherra leggur síðan áfram fyrir þingið í þingsályktunartillögunni.