151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:35]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og henni fagna ég. Tillagan byggist á tillögum þingmannanefndar sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði til að endurskoða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Ég var svo heppin að fá að sitja í þeirri nefnd og þar gafst okkur tækifæri til þess að afla mikils fróðleiks og upplýsinga um norðurslóðir og starfsemi Íslendinga tengda norðurslóðum. Úr varð, að ég álít, býsna þétt tillaga eða þéttar áherslur. Til urðu 19 punktar og lagt er til að Alþingi feli ríkisstjórninni að fylgja stefnu í málefnum norðurslóða sem byggist á þessum 19 áhersluþáttum. Þeir þingmenn sem hafa talað á undan mér hafa komið inn á mismunandi punkta og atriði úr þessari ályktun. Ég ætla að koma inn á nokkra og byrja kannski á 17., 18. og 19. punktinum, þeir snúa í rauninni að alþjóðlegu vísindasamstarfi. 17. áhersluþátturinn er að styðja við alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum og auðvelda miðlun á niðurstöðum vísindarannsókna og efla innlent rannsóknastarf, m.a. með að móta rannsóknaáætlun um norðurslóðir, til þess að efla enn frekar rannsóknir innan lands og þátttöku í alþjóðlegu vísindasamstarfi.

Þá er 18. punkturinn sá að byggja á árangri Hringborðs norðurslóða og skapa því umgjörð til framtíðar með því að koma á fót sjálfseignarstofnun um norðurslóðasetur á Íslandi. Þetta tel ég afar mikilvægt. Það má segja að Ísland hafi í gegnum Hringborð norðurslóða orðið einhvers konar tengipunktur, hér hafi myndast tengill þar sem fólk hittist og ræðir málefni norðurslóða og það er mjög mikilvægt að skapa hringborðinu umgjörð þannig að þau tengsl haldi áfram og við getum haldið áfram að byggja utan um þau.

Svo er það 19. punkturinn sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á hér á undan mér og ég ætla að halda áfram með, þ.e. að efla Akureyri enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi, m.a. með stuðningi við mennta- og rannsóknastofnanir og þekkingarsetur, og efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða. Mig langaði að rekja það töluvert á hverju sú áhersla byggist. Eins og við vitum þá liggur norðurheimskautsbaugur gegnum nyrsta byggðakjarna Akureyrarbæjar, þ.e. í gegnum Grímsey. Það er út af fyrir sig heilmikið tilefni til að tengjast vel norðurslóðum. En á Akureyri hefur um langt árabil byggst upp sérhæfing og ýmiss konar sérhæfð starfsemi tengd norðurslóðum, bæði í innlendu og alþjóðlegu samhengi. Þar er þekkingarklasi sem samanstendur af skrifstofum á vegum Norðurskautsráðsins og stofnunum og fyrirtækjum og þetta er mjög mikilvægur klasi og einmitt dæmi um hvernig klasasamstarf getur virkað og hlaðið utan á sig eins og snjóbolti. Þarna inni er Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem hefur frá 1997 unnið að málefnum norðurslóða. Svo er það skrifstofa alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar, IASC, og skrifstofur tveggja vinnuhópa Norðurskautsráðsins, um verndun lífríkis norðurslóða, CAFF, og málefna hafsins, PAME. Háskólinn á Akureyri er svo hluti af háskólaneti norðurslóða, Arctic, og einn af stofnaðilum þess, en háskólinn hefur í fjölda ára starfrækt meistaranám í heimskautarétti. Þar er líka staða gestaprófessors, Friðþjófs Nansens gestaprófessors, sem er styrkt af utanríkisráðuneytum Íslands og Noregs. Svo er ýmis þjónusta sem tengist norðurslóðanetinu.

Það sem mig langaði sérstaklega að koma inn á er að Akureyrarbær tekur virkan þátt í samtökum um eflingu byggða á norðurslóðum og vettvangi borgar- og bæjarstjóra á norðurslóðum. Svo eru rannsóknastöðvar á Norðurlandi, ein að Kárhóli í Þingeyjarsveit sem tengist norðurslóðasamstarfi og svo er líka norðurljósarannsóknastöð japönsku pólrannsókna- og raunvísindastofnunar á Tjörnesi. Þá langar mig að nefna rannsóknastöðina Rif á Melrakkasléttu. Þar eru stundaðar alþjóðlegar rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum og vöktun á viðkvæmum vistkerfum. Það má segja að á Melrakkasléttu séu einu vistkerfin sem falla í rauninni undir það sem kallað er „subarctic“-vistkerfi. Það er einmitt mikilvægt að í málefnum norðurslóða sé þverfagleg nálgun eins og hefur gefur góða raun í þessu samstarfi á Akureyri og víðar þar sem byggðar hafa verið upp miðstöðvar þar sem má ná fram samlegðaráhrifum í klasasamstarfi. Þá liggur fyrir að á Akureyri er ríkur vilji til að marka bænum enn skýrari stöðu sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og styðja ætti aðila á svæðinu til þess. Þá eru auðvitað, eins og hefur líka komið fram hér í umræðunni, mikil bein samskipti frá Akureyri til Grænlands og þjónusta veitt frá Akureyri til Grænlands.

Þá langar mig aðeins að snúa mér að öðrum hlutum, en áður en ég fer í næsta áherslupunkt þá er auðvitað lögð áhersla á það hér að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun séu ávallt höfð til hliðsjónar í stefnumótun og samstarfi á norðurslóðum. Heimsmarkmiðin 17 eru jú samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; efnahagslegu stoðarinnar, félagslegu stoðarinnar og umhverfislegu stoðarinnar. Allt þetta skiptir miklu máli á norðurslóðum.

Þá langar mig að koma aðeins inn á notkun gervihnatta, bæði gervihnattaleiðsögukerfa og -fjarskiptakerfa, eins og komið hefur verið inn á hér í umræðunni líka, en líka tækifærin sem felast í notkun gervihnatta. Ef komið er upp öflugu gervihnattaneti á norðurslóðum er hægt að nýta það í ýmiss konar vöktun á náttúrunni, bæði náttúrunnar vegna til að vakta breytingar, og eins vegna nýtingar á náttúrunni og til þess að meta þol varðandi nýtingu og auka sjálfbærni í nýtingu náttúrunnar. Svo eru auðvitað miklir hagsmunir fólgnir í því að tryggja samgönguöryggi með því að þétta gervihnattanetið á norðurslóðum.

Þá langaði mig að koma inn á 9. áhersluþáttinn sem er að beina sjónum að velferð íbúa á norðurslóðum. Að sjálfsögðu þurfa þeir að hafa tækifæri og möguleika til þess að þróa sína lífsafkomu, m.a. með aðgengi að stafrænum fjarskiptum, menntun og heilbrigðisþjónustu. Það þarf að styðja réttindi frumbyggja og jafnrétti í hvívetna, svo sem viðleitni til að vernda menningararf og tungumál þjóðanna sem byggja norðurslóðir. Þá má velta því fyrir sér hvort við höfum ekki ýmsu að miðla hér þar sem við erum að koma tungumáli okkar inn í stafrænan heim. En það er fleira sem Ísland hefur stutt hvað varðar viðleitni til þess að styrkja innviði samfélaga á norðurslóðum og ýta undir efnahagslega uppbyggingu og velferð. Til að mynda hefur Ísland um árabil leitt verkefni um jafnréttismál á norðurslóðum en einnig verkefni um möguleika til nýsköpunar í bláa lífhagkerfinu og um miðlun þekkingar varðandi sjálfbæra orkukosti. Þá hafa verið ýmiss konar samstarfsverkefni sem miða að því að standa vörð um mannréttindi, stuðla að jafnrétti og velferð, m.a. í forvörnum og lýðheilsumálum, svo sem forvarnir gegn misnotkun áfengis og fíkniefna og vinna að bættri geðheilbrigðisþjónustu.(Forseti hringir.)

Ég óska hv. utanríkismálanefnd velfarnaðar í vinnu með þetta mál.