151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:51]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir andsvarið. Mig langar samt aðeins að halda áfram að vekja athygli á því starfi sem unnið er af hálfu Háskóla Íslands. Háskóli Íslands er stærsti háskóli landsins og leiðandi í rannsóknum á ýmsum sviðum er snerta norðurslóðir. Hann leggur áherslu á gæði í rannsóknum og starfrækir fjölda undirstofnana. Og fræðimenn, eins og ég sagði hér áðan, á öllum sviðum háskólans stunda rannsóknir sem tengjast norðurslóðum.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á það sem ég ætlaði að spyrja um, þ.e. hið mikilvæga hlutverk Hringborðs norðurslóða, sem lyft hefur grettistaki í því að að koma okkur á kortið er varðar norðurslóðir og málefni norðurslóða og þá er ég að tala um á kortið alþjóðlega.

Í fullkomnum heimi myndi ég líka vilja sjá, vegna þess að hv. þingmaður talar um að Akureyri hafi verið leiðandi á þessu sviði — og ég ætla ekki að draga neitt úr því að Akureyri og Akureyrarbær, Norðurlandið og fræðasetur þar og Háskólinn á Akureyri hafa verið gríðarlega öflug þegar kemur að rannsóknum á norðurslóðum og starfi sem þeim tengjast og sömuleiðis Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. En ég vil líka vekja athygli á því merka, mikilvæga og góða starfi sem fræðimenn við Háskóla Íslands hafa innt af hendi þegar kemur að málefnum norðurslóða. Ég held að í fullkomnum heimi þyrfti að þétta þetta samstarf á milli norðursins og suðursins hér á okkar litlu eyju til að við verðum öflugt og leiðandi ríki þegar kemur að málefnum norðurslóða á tímum stöðugra og örra breytinga, sér í lagi þegar kemur að loftslagsbreytingum sem síðan koma inn á svokallaðar geó-pólitískar breytingar. Þannig að mitt seinna andsvar er nokkurs konar árétting á þessu mikilvægi Háskóla Íslands og því starfi sem þar er unnið og kannski ákall um að við sameinumst um enn frekara samstarf okkar góðu fræðimanna á þessu sviði.