151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:55]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég ætla að þakka fyrir hana. Mér hefur fundist hún vera til fyrirmyndar, málefnaleg og efnislega góð. Hér komu hv. þingmenn upp sem flestir ef ekki allir voru í þeirri nefnd sem undirbjó þetta, hinni þverpólitísku nefnd, undir forystu hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur og hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar. Ég held að það sé alveg sérstakt fagnaðarefni að við séum að ræða þennan mikilvæga málaflokk með þeim hætti sem við gerum hér. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir vísaði til þess, sem við skulum ekki gera lítið úr, að eitt af markmiðunum sé að auka vitund og umræðu um málefni norðurslóða. Við erum norðurslóðaþjóð og við eigum ávallt að hafa það í huga og tala fyrir hönd þeirra sem hér búa og þá er ég að vísa í stóra samhengið. Verkefnin eru mörg og það er mjög gott að þingmannanefndin hafi náð svona vel saman um þessa mikilvægu hluti.

Virðulegi forseti. Hér hefur vakið athygli að nefndin náði saman um hluti, sem ég var sammála og setti í þessa þingsályktunartillögu, bæði um það að reyna að sjá til þess að Hringborði norðurslóða verði sköpuð umgjörð til framtíðar með því að koma á fót sjálfseignarstofnun norðurslóðaseturs á Íslandi og að efla Akureyri enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Þetta eru stórar ákvarðanir ef þær fara í gegnum þingið, sem ég á von á. Eins og kom fram hér í orðaskiptum hv. þingmanna eru þetta ekki andstæður og auðvitað er það þannig, eins og kom fram í umræðunni, að málefni norðurslóða varða landið allt. En ég held að það sé skynsamlegt og styð það eins vel og ég get að þessar tillögur nái fram að ganga. Ég held að við sem þjóð sem vill ná fram þeim markmiðum sem hér koma fram skipum málum vel með því að ganga fram með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að sjá hvernig þessum málum vindur fram í hv. utanríkismálanefnd. Það eru margir hv. þingmenn sem taka þátt í umræðunni og ég held að megi fullyrða að hv. þingmenn eru almennt sammála um tillögurnar og það er góður grunnur til að byggja á því að málefni norðurslóða fara ekki frá okkur. Þetta er nokkuð sem við þurfum að vinna að á næstu áratugum í það minnsta og það skiptir máli að vel gangi og að þverpólitísk samstaða sé um þessar áherslur og það skiptir máli að það sem hér er sett fram nái fram að ganga. Ég vil því bara nota tækifærið, virðulegi forseti, og þakka þingmönnum fyrir afskaplega góða og málefnalega umræðu.