151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:00]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem ég hitaði aðeins upp fyrir áðan með því að byrja að flytja framsöguræðu í máli sem er svo sannarlega tengt en er ekki sama mál. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að ganga til viðræðna við grænlensk stjórnvöld um tvíhliða rammasamning um aukin samskipti landanna, byggt á tillögum Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Ég hef í starfi mínu sem utanríkisráðherra lagt mikla áherslu á norðurslóðir og að efla samskipti við önnur norðurslóðaríki. Síðustu misseri hefur sérstök áhersla verið á norðurslóðamálefni, aukin samskipti milli ríkja og viðskiptatækifæri á þessu gríðarlega viðkvæma svæði og ég hef þegar sett af stað vinnu til að greina þessi mál og hagsmuni Íslands enn betur.

Virðulegi forseti. Grænland spilar lykilhlutverk á norðurslóðum og er auk þess landfræðilega næsti nágranni Íslands. Tvíhliða samskipti landanna hafa eflst mikið á undanförnum árum, ekki síst með opnun sendiskrifstofu Íslands í Nuuk árið 2013 og opnun grænlenskrar sendiskrifstofu í Reykjavík árið 2018. Samskipti landanna á sviði menningar, lista og íþrótta hafa verið nokkuð mikil í gegnum tíðina og félagasamtök eins og Hrókurinn og Rauði krossinn hafa unnið stórvirki. Ég tel mikilvægt að efla samstarfið enn frekar.

Löndin eiga nú þegar mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta, m.a. á sviði sjávarútvegs, flugþjónustu, stjórnar flugumferðar, ferðaþjónustu, loftslagsmála og málefna norðurslóða. Eins og áður hefur verið kynnt þá skipaði ég í apríl 2019 nefnd um gerð tillagna um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum. Nefndin skilaði mér í janúar á þessu ári ítarlegri skýrslu með tillögum sínum um aukið samstarf landanna. Að baki tillögum nefndarinnar er umfangsmikil og ítarleg greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna, í raun umfangsmesta greining sem nokkurn tíma hefur verið gerð á samskiptum landanna. Nefndin forgangsraðaði tíu tillögum til stefnumörkunar af samtals 99 tillögum hennar. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að Grænland og Ísland gerðu með sér rammasamning um samstarf í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér er lögð fram ásamt greinargerð byggir á megintillögum Grænlandsnefndar. Skýrsla nefndarinnar og útdráttur eru í fylgiskjölum með þingsályktunartillögunni, en skýrslunni hefur áður verið dreift á prentuðu formi á Alþingi. Í ljósi þess að málefni norðurslóða og aukin samskipti við okkar næstu nágranna og ekki síst Grænland eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu er mikilvægt að hefja sem fyrst samráð við grænlensk stjórnvöld um tillögur Grænlandsnefndarinnar. Nú þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við stjórnartaumunum á Grænlandi þá höfum við tækifæri til að hefja aftur samtal og samráð við Grænland. Af Íslands hálfu verður byggt á þeim málaflokkum og tillögum sem fjallað er um í Grænlandsskýrslunni og það er mikilvægt að taka fram að tekið verður fullt tillit til grænlensku sjálfsstjórnarlaganna.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.