151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:04]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, að höfðu samráði við Alþingi, að fylgja eftir tillögum í skýrslu Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um aukin samskipti Grænlands og Íslands á sviðum þar sem hagsmunir landanna fara saman. Gerður verði rammasamningur milli landanna þar sem lýst verði markmiðum á tilgreindum samstarfssviðum, að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila. Af Íslands hálfu verði lögð áhersla á þá málaflokka og tillögur sem fjallað er um í skýrslu Grænlandsnefndar. Rammasamningurinn taki einnig fullt tillit til grænlensku sjálfstjórnarlaganna.“

Varðandi dönsk stjórnvöld þá hafa þau fylgst með þessari vinnu og ég hef rætt þessi mál við sendiherra Dana hér á landi. Þeir hafa verið meðvitaðir um þetta starf alveg frá upphafi en fyrst og fremst, þegar kom að tillögum og öðru slíku, var það á hendi viðkomandi nefndar sem hefur nú kynnt það, ef ég þekki það rétt, fyrir hv. utanríkismálanefnd hvernig sú vinna fór fram. Það voru fundir með ýmsum aðilum enda eru tilgreindir í þessum 99 tillögum hugsanlegir aðilar sem skipta tugum. Eins og kemur fram í tillögunni þá er tekið fullt tillit til grænlensku sjálfsstjórnarlaganna en dönsk stjórnvöld hafa frá fyrsta degi verið meðvituð um vinnuna og sömuleiðis kynnt sér efni skýrslunnar.