151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að heyra, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, að það hafi verið upplýsandi samtöl á milli íslenskra stjórnvalda og þeirra dönsku um skýrsluna og þá væntanlega um tillögur sem kæmu síðan fram og færu inn á borð Alþingis. Í seinna andsvari mínu langar mig til þess að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um samskiptin við Bandaríkin í tengslum við þessa þingsályktunartillögu vegna þess að í skýrslunni um samskipti Grænlands og Íslands er minnst alls 15 sinnum á fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, og á bls. 31, með leyfi forseta, segir:

„Ísland hefur því risið úr þoku langvarandi áhugaleysis Bandaríkjanna á Norðurslóðum og öðlast nýja þýðingu með endurmati ríkisstjórnar Donalds Trump á vægi þeirra í heimsmynd aldarinnar.“

Þetta eru ekki léttvæg og lítil orð. Þarna er verið, hvað á ég að segja, að þakka Donald Trump fyrir að hafa loksins sýnt okkur áhuga og norðurslóðum líka og það er rétt að áhugi ríkisstjórnar hans varð mikill og nokkuð gassalegur og fyrirferðarmikill.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sjái fyrir sér stefnubreytingu, áherslubreytingar hjá nýrri ríkisstjórn Joes Bidens. Sömuleiðis langar mig að fá fram frá hæstv. utanríkisráðherra hvort í tengslum við þessa merku skýrslu og tillögurnar sem hingað eru komnar á borð Alþingis hafi eitthvert samtal hafi átt sér stað við Evrópusambandið og önnur Evrópuríki heldur en Danmörku. Þau fylgjast væntanlega grannt með þessari vinnu og þingsályktunartillögunum og þeirri umræðu sem fram fer hér á íslenska þjóðþinginu. Hefur hæstv. utanríkisráðherra með einhverjum hætti átt samtöl (Forseti hringir.) við fulltrúa Evrópusambandsins eða Evrópusambandsríkja? Og svo náttúrlega fyrri hluti spurningar minnar um breyttar áherslur Bandaríkjastjórnar.