151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:33]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra ráðherra fyrir þessa skýrslu og fyrir hafa komið málum svo fyrir að hún hafi verið unnin. Hún fellur í safn nokkurra annarra skýrslna sem komið hafa fram í vetur sem hafa verið mjög góðar og mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að eiga þær. Þar má nefna skýrslu eins og Áfram gakk! um viðskipti Íslands við útlönd, skýrslu Björns Bjarnasonar um öryggismálin. Við sjáum að þetta eru efnislega mjög góðar skýrslur og sú sem við ræðum hér, Grænlandsskýrslan, er 250 síðna plagg um mjög mikilvæg málefni sem skipta okkur miklu máli hér á Íslandi.

Það er rétt að þakka fyrrverandi utanríkisráðherra og formanni nefndar og starfshóps um skrif Grænlandsskýrslunnar, Össuri Skarphéðinssyni, og öðrum nefndarmönnum, Unni Brá Konráðsdóttur og Óttari Guðlaugssyni, fyrir þeirra góðu vinnu í tengslum við þessa skýrslu.

Þegar ég las skýrsluna yfir fannst mér margt mjög vel orðað þar og langar mig að vitna, með leyfi forseta, í það sem stendur á bls. 36:

„Landfræðilega liggja löndin steinsnar hvort frá öðru og milli þeirra ríkir gagnkvæmur skilningur, vinátta og virðing. Náið samstarf er því líklegt til að hafa samlegðaráhrif á mörgum sviðum og skila bæði efnahagslegum og pólitískum ávinningi auk þess að styrkja stöðu beggja gagnvart hinum ytri heimi.“

Það sem mér finnst efnislega svo mikilvægt í þessu, og ég held að það sé lykilatriði í öllum samskiptum milli Íslendinga og Grænlendinga, eru þessi þrjú orð; skilningur, vinátta og virðing. Ég hygg að þegar að við Íslendingar heimsækjum Grænland finnum við þennan velvilja Grænlendinga gagnvart Íslendingum og við eigum að passa upp á það mikla traust sem Grænlendingar sýna okkur og byggja samskipti okkar áfram á þeim nótum. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að þessi góðu samskipti munu skipta okkur gríðarlegu máli á þessari öld og þar er margt undir.

Víða er komið við í skýrslunni og kemur fram í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni, sem byggist á Grænlandsskýrslunni, m.a. um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skýrslan markar tímamót enda hefur utanríkisráðuneytið aldrei fyrr ráðist í jafn umfangsmikla greiningu á samskiptum landanna tveggja.“

Þetta er 250 síðna plagg sem við ræðum hér. Ef ég vitna í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í skýrslunni er fjallað um land og samfélag, stjórnskipulag og stjórnmál í Grænlandi, innviði í uppbyggingu, meðal annars umtalsverða uppbyggingu flugsamgangna og sjóflutninga.“

Síðan er sérstaklega fjallað um Austur-Grænland og þau sérstöku viðfangsefni sem þar eru. Mig langar aðeins í þessari stuttu ræðu að koma inn á einstaka þætti þar, eins og varðandi sjávarútveginn. Við höfum deilistofna og við sjáum að það er gríðarlega mikilvægt að það sé góð samvinna á því sviði. Um er að ræða töluvert samstarf þar sem íslensk fyrirtæki taka þátt í sjávarútveginum á Grænlandi með góðum og jákvæðum hætti.

Síðan er líka rætt í greinargerðinni um flugþjónustuna, sem tengist náttúrlega beint ferðaþjónustunni í framtíðinni. Grænlendingar leggja áherslu á að byggja upp ferðaþjónustuna, skjóta fleiri stoðum undir efnahagslíf sitt, eins og við Íslendingar höfum verið að gera á síðustu áratugum með fjölbreyttari hætti en var fyrir 30–40 árum þegar við vorum kannski í svipaðri stöðu og Grænland í dag varðandi það að vera með tiltölulega einhæfan útflutning sem snýr að sjávarútvegi. En þá kemur flugið sterkt inn, vegna þess að það fljúga meira og minna allir ferðamenn til Grænlands. Það eru jú skemmtiferðaskip, en flugið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og Grænlendingar sýna það núna að þeir ætla að breyta töluvert samgöngum í fluginu. Þeir eru að fara í uppbyggingu þriggja flugvalla í Ilulissat, Nuuk og á suðurströndinni, í Qaqortoq, þannig að þar verða alþjóðaflugvellir, 2.200 metra brautir í Nuuk og Ilulissat. Og svo á að byggja upp 1.600–1.700 metra braut á Suður-Grænlandi þannig að flogið verður beint inn á þessa velli frá útlöndum í staðinn fyrir að í dag fer allt flugið um Syðri-Straumsvík, eða Kangerlussuaq. Þetta eru því stórar og miklar — og stærstu innviðaframkvæmdir sem farið hafa fram á Grænlandi sem tengjast þessari flugvallargerð. Það er mjög stefnumarkandi fyrir Grænland og framtíð Grænlands að menn taka stórar ákvarðanir sem tengjast þessu. Nú er spurning hvernig samvinna Íslendinga og Grænlendinga verður til framtíðar, þá tengt þessum flugvöllum.

Það kemur líka fram í greinargerðinni að við erum í mikilli samvinnu um stjórn flugumferðar. Annars vegar stýrir Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík flugumferð í háloftunum yfir Grænlandi. Síðan hafa íslenskir flugumferðarstjórar unnið í Syðri-Straumsvík, eða Kangerlussuaq, og sinnt þar flugumferðarstjórn allra síðustu ár og hafa líka verið að þjálfa upp Grænlendinga til að verða flugumferðarstjórar. Í dag eru þeir þrír þar. Það er mjög jákvætt og allt það samstarf hefur gengið mjög vel.

Í fyrri ræðu hér rétt áðan fór ég í gegnum mikilvægi gervihnattaleiðsögunnar. Það vinnst ekki tími til að fara í gegnum það hér, en hún er gríðarlega mikilvæg og eins uppbyggingin varðandi EGNOS eða WAAS. Ég vil rétt minnast á það hér að ég tel að það væri mjög áhugavert að styrkja sambandið sem snýr að því. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir Grænlendinga og líka mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að koma þessu á koppinn hér á Norður-Atlantshafinu.

Síðan er líka mikilvægt atriði í skýrslunni þar sem minnst er á skipaflutningana. Við sjáum núna þetta sameiginlega net sem hefur verið að byggjast upp á milli Royal Arctic Line og Eimskips varðandi skipaflutninga, þannig að nú tengist þetta net um Sundahöfn og stóreykur möguleika Grænlendinga á útflutningi t.d. til Bandaríkjanna.

Það er margt fróðlegt í skýrslunni. Eitt af því sem mér þótti mjög fróðlegt var að útflutningur Grænlendinga er t.d. 13 sinnum meiri til Kína en til Bandaríkjanna. Það er mjög áhugavert og verður spennandi að sjá hvernig þessir nýju skipaflutningar koma inn í það, hvort það verði einhver breyting tengt því þegar það verður auðveldara að nálgast önnur markaðssvæði frá Grænlandi en áður hefur verið.

Víða er komið við í skýrslunni. Og tíminn líður hratt. En það eru mjög áhugaverðar hugmyndir þarna um fjarnám og leitað hefur verið til Íslendinga í því sambandi. Leitað hefur verið til Menntaskólans á Tröllaskaga frá framhaldsskólum á Grænlandi um samvinnu og það hefur verið samvinna þar á milli. Síðan hefur verið bent á hversu langt Háskólinn á Akureyri er kominn í allri fjarkennslu. Þarna gæti verið hægt að bjóða upp á nám á Grænlandi og síðan yfirfæra kannski einhverja þekkingu sem tengist þessu og jafnvel þá í hina áttina líka, að vera með fjarnám frá Grænlandi til Íslands. Þannig að það eru mjög spennandi hlutir í því sambandi.

Heilbrigðismálin. Sjúkraflugi á austurströnd Grænlands hefur verið sinnt frá Akureyri um langa hríð. Um er að ræða í kringum 3.000 íbúa þar, hvort sem er á Ammassalik-svæðinu eða í kringum Scoresbysund. Norlandair á Akureyri hefur sinnt sjúkraflugi á þeim slóðum og raunverulega um allt Grænland í samvinnu við Air Greenland. Það er mikið samstarf og við getum eflt það töluvert mikið.

Ég sé að tíminn styttist og ég er varla byrjaður á atriðunum sem ég var búinn að punkta hjá mér, ég hef t.d. ekkert talað um mögulega námuvinnslu og það mikilvæga hlutverk sem við þurfum að ræða meira um, t.d. samvinnu um námuvinnslu á Grænlandi, einhverja stoðþjónustu. Við höfum ekkert náð að ræða um mikilvæga og sjaldgæfa málma og slíkt í hátækni, sem gnótt er af á Grænlandi og verður örugglega litið til þess að skoða þau mál í framtíðinni. En það gefst greinilega ekki tími hér til að fara í þau mál.