151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:50]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Aftur þakka ég fyrir afskaplega góða og málefnalega umræðu og það er gott að heyra viðbrögð hv. þingmanna við þingsályktunartillögunni og skýrslunni sem við höfum rætt áður. Við fórum þessa leið, fengum til aðila, í þessu tilfelli fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmann, Unni Brá Konráðsdóttur, og Óttarr Guðlaugsson, til að vinna þetta í góðu samstarfi við ráðuneytið, svipað og var gert í annarri stórri skýrslu sem var unnin undir forystu fyrrverandi mennta- og dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, og Bergþóra Halldórsdóttir og Kristrún Heimisdóttir voru með í þeirri vinnu. Ég vona að þessi vinnubrögð séu komin til að vera því að ég held að það sé bæði hagkvæmara og skynsamlegra og við fáum meira út úr því þegar við nýtum krafta fólks sem hefur áhuga og mikla þekkingu á þessum málum hverju sinni. Og bara svo það sé sagt þá hefur þessi skýrsla sömuleiðis vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi, hún hefur verið þýdd og við höfum fengið mikil viðbrögð við henni.

Hér var farið yfir ýmislegt og ég þakka hv. þingmönnum fyrir hlý orð í minn garð og nefndarinnar. Það var spurt um framhaldið, hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir gerði það, varðandi fríverslun, sjávarútvegssamning og samstarf um smávirkjanir. Áætlunin er sú að setjast niður með nýjum stjórnvöldum í Grænlandi og semja rammasamning. Við gerum ekkert nema í samvinnu við Grænlendinga og þá kemur auðvitað í ljós hvar áhugi þeirra liggur í því hvar við eigum að vinna saman. En mér finnst skýrslan hins vegar vera fróðleg og hún er mjög á dýptina og er með tillögur sem eru svona hlaðborð, getum við sagt, þetta eru 99 tillögur í það heila, frá mjög smáum hlutum, þegar kemur að fjármunum og öðru slíku, yfir í mjög stóra hluti. En allt eru þetta mál sem ég vonast til að þeir aðilar sem tilgreindir eru í skýrslunni skoði vel og meti hvort það sé áhugi hjá þessum tveimur löndum að ná saman um samstarf á þessu sviði.

Fyrstu viðbrögð voru þannig að þeir aðilar, nokkurn veginn allir sem tilgreindir eru í skýrslunni, hafa sýnt áhuga á því að fylgja þessum málum eftir, sem mér fannst vera ansi magnað. Eitt af því sem við höfum gert í ráðuneytinu er að skipuleggja okkur þannig að hægt sé að vinna með þessi mál, en aftur — við gerum ekkert nema í samstarfi og í samvinnu við Grænlendinga.

Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson nefndi hér ýmislegt eins og flugið og sömuleiðis það sem kemur vel fram í skýrslunni, hvað samstarfið milli Royal Arctic Line á Grænlandi og Eimskips opnar á mikla möguleika. Ég get líka tekið undir það, bæði hjá hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni og hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, að það er í rauninni svolítið merkilegt hvað hefur verið lítið samstarf miðað við hvað það er stutt á milli, en vonandi sjáum við breytingu hvað það varðar.

Í lokin, virðulegi forseti, þá liggur alveg fyrir að áhuginn er okkar megin. Ég get ekki greint annað en að þverpólitísk samstaða sé um þessar áherslur. Og það sem er ofsalega ánægjulegt er að í skoðanakönnun í Grænlandi þar sem spurt er um aukið samstarf, áhuga á auknu samstarfi við ríki og ríkjabandalög, er áberandi að mestur áhugi er á samstarfi við Ísland. Yfir 90% Grænlendinga líta á það sem vænlegan kost. Ég lít svo á að byggst hafi upp gott traust á milli ríkjanna og vil ég vekja athygli á því svona í lokin að það er erfitt að byggja upp traust en það er auðvelt að brjóta það niður. Við þurfum að hafa það í huga í öllum okkar samskiptum við nágranna okkar og vini og bandamenn og það á ekki síst við hér.

Ég vonast líka til þess, virðulegi forseti, að ekki verði bara aukin samskipti á milli þeirra aðila sem þarna eru tilgreindir, sem er mikilvægt, það eru ýmsir aðilar í atvinnulífinu, frjáls félagasamtök, skólar, heilbrigðisyfirvöld og slíkt, heldur líka á milli stjórnmálamanna. Hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir og Guðjón S. Brjánsson þekkja þau mál mjög vel og hafa sinnt því mjög vel og það þarf auðvitað að gera það áfram. Það verður enginn svikinn af því að heimsækja Grænland. Ég get alveg lofað því. Þarna er ekki bara, eins og hefur komið fram, stórkostleg náttúra heldur sömuleiðis mikill mannauður og við getum mjög mikið lært af Grænlendingum og hvernig þeir vinna sína hluti. Ég lít svo á að aukið samstarf milli Grænlands og Íslands sé eitthvað sem við öll getum notið og munum geta nýtt okkur, ekki bara fyrir okkur sem nú lifum heldur líka komandi kynslóðir. Ég veit að hv. utanríkismálanefnd mun fara vel í þetta mál og ég vonast til þess og er sannfærður um að við munum klára þetta mál nú í vor. Það verður þá grunnur að enn betri og bættum samskiptum milli þjóðanna og það er mikið fagnaðarefni.