Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:16]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Herferð Samherja, sem hefur staðið síðustu mánuði og nú síðustu vikur með ofsafengnum árásum að heiðri og mannorði Helga Seljans, hefur haft þau áhrif að Ísland hefur færst niður um sæti á lista yfir fjölmiðlafrelsi landa, sem samtökin Blaðamenn án landamæra birtu fyrir stuttu. Samtökin tilgreina sérstaklega herferð Samherja gegn fjölmiðlafólki sem hefur fjallað um starfsemi Samherja í Namibíu. Samtökin lýsa einnig yfir áhyggjum sínum af því að vantraust til blaða- og fréttamanna hafi færst í aukana á heimsvísu.

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því að fyrirtæki sem er falið að fara með auðlindir þjóðarinnar nýti auðlindarentuna í herferðir gegn fjölmiðlum í landinu? Fjölmiðlar þurfa að geta gagnrýnt, bent á spillingu og sýnt valdhöfum og stórfyrirtækjum virkt aðhald. Auðvitað er ég sammála orðum hæstv. forsætisráðherra frá því í gær um að stíga þurfi varlega til jarðar þegar tjáningarfrelsi er hamlað. En ef það á að leggja tjáningarfrelsi stórfyrirtækis að jöfnu við frelsi fjölmiðla til að upplýsa almenning um spillingu þá þarf að skoða gildismatið hjá ríkisstjórninni. Eða er það svo að við ætlum að virða tjáningarfrelsi þeirra sem eiga peninga meira en þeirra sem svipta hulunni af spillingu? Eru það peningar sem skipta hér máli, arður sem hefur verið færður Samherja og öðrum stórum sjávarútvegsfyrirtækjum á silfurfati? Er ríkisstjórnin hrædd við fjölmiðla eða er hún hrædd við fjármálaöflin hér á landi? Er samtryggingin orðin slík að það er látið viðgangast að eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, sem stýrir einni stærstu auðlind þjóðarinnar, fái að vaða hér uppi með óhróður sem hefur þann eina tilgang að kæfa gagnrýnar umræður og koma í veg fyrir að fréttamenn geti sinnt starfi sínu, að skjóta sendiboðann svo að upplýsingar skili sér ekki til almennings? Auðvitað þarf að bæta rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla en vantraust á fjölmiðlum verður ekki lagfært með slíkum einföldum breytingum. (Forseti hringir.) Ríkið og Alþingi þarf að sýna í aðgerðum og verki að við skiljum mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi, fjölmiðlafrelsis og ekki síst tjáningarfrelsis.